Á allt öðrum stað í lífinu

Haraldur Guðjónsson Thors ljósmyndari fór í raunfærnimat hjá IÐUNNI fræðslusetri haustið 2017 og í sveinspróf í ljósmyndun haustið 2018 eftir nám í Tækniskólanum, vorið 2020 útskrifaðist hann sem iðnmeistari í ljósmyndun.

Haraldur Guðjónsson Thors
Haraldur Guðjónsson Thors

    „Ef ég hefði ekki farið þessa leið, þá væri ég á allt öðrum stað í lífinu. Ég er öruggari á vinnumarkaði og ég er með hærri laun. En ég viðurkenni að ég var hræddur við að taka þetta skref,“ segir Haraldur Guðjónsson Thors ljósmyndari um raunfærnimat sem hann fór í hjá IÐUNNI eftir kynningarfund haustið 2017.

    Haraldur er reynslumikill ljósmyndari en á óhefðbundna skólagöngu að baki. Hann nam fyrst ljósmyndun í fjarnámi frá New York Institute of Photography, þá var hann lengi vel lausamaður hjá Morgunblaðinu, Birtíngi og síðar á Fréttablaðinu. Hann var fastráðinn ljósmyndari hjá Viðskiptablaðinu og myndaði einnig fyrir AFP, Reuters og fleiri erlendar fréttamyndaveitur.

    „Skólaganga mín gekk illa og var sundurslitin ég kláraði aldrei neitt nema kannski morgunmatinn,“ segir hann og hlær. „Ætli hræðslan hafi ekki stafað af því að ég held ég hafi ekki haft neina trú á því að ég gæti gengið í skóla. Ég fékk afdrifaríkt símtal frá Vilhelm Gunnarssyni ljósmyndara sem nú starfar á Sýn haustið 2017. Hann safnaði ljósmyndurum á kynningarfund um raunfærnimat. Hann spurði hvort ég vildi vera á listanum og ég játti því en var svona svolítið efins. Mætti samt á fundinn með nokkrum ljósmyndurum og það endaði þannig að ég fór einn áfram í raunfærnimat.“

    Allir af vilja gerðir

    Haraldur kláraði raunfærnimatið seint í nóvembermánuði og Tækniskólinn kom til móts við hann þótt að frestur til að sækja um skólavist væri útrunninn. „Það er reynsla mín að það eru allir af vilja gerðir til að greiða leiðina. Það eru auðvitað skilyrði sem þarf að uppfylla til að fá nám metið og svo tekur skólinn við. Ég fór í hóp þar sem voru kennd almenn fög og var sérstaklega fyrir nemendur sem voru í raunfærnimati. Í þessum hópi upplifði ég algjöra snilld í íslensku skólakerfi. Þarna vorum við, eiginlega allt karlar eins og ég sem hafði ekki lánast að klára nokkurn skapaðan hlut. Og fólkið sem kenndi okkur hafði helgað starfsævi sinni í að kenna fullorðnu fólki sem á að baki brotna skólagöngu og átti erfitt með nám. Þessir kennarar voru ofurhetjur og hvöttu okkur áfram. Við fengum góðan stuðning í gegnum námið og öllum brögðum beitt í bókinni til að hvetja okkur áfram. Auðvitað eru engar styttri leiðir eða neitt slíkt, þetta er sanngjarnt ferli en þegar ég horfi til baka þá finnst mér hafa verið galdur í þessu,“ segir Haraldur og segir að til dæmis hafi verið reynt að finna aðrar lausnir en að senda fullorðna fólkið í tíma sem hentaði þeim ekki. „Ég get nefnt lífsleikni sem dæmi. Þær kennslustundir henta unglingum en ekki fullorðnu fólki. Skólinn kom til móts við okkur að svo mörgu leyti og aðrar lausnir fundnar. Ég fór í jarðfræði og félagsfræði í FB í staðinn fyrir nokkra áfanga sem hentuðu mér ekki. Ég fékk 10 í jarðfræði og 9.5 í félagsfræði og fannst þetta geggjaðir áfangar. Ég bý enn að því að hafa sótt þá. Ég fór svo í sveinspróf með vottorð um að ég myndi útskrifast á önninni. Þegar ég útskrifaðist var ég orðin sveinn, og mikið var það góð tilfinning! Einmitt um það leyti sem ég er að útskrifast þá losnar kennarastaða í Tækniskólanum og mér bent á að ég gæti sótt um hana því ég uppfyllti öll hæfniskilyrði. Þannig að þegar ég útskrifast er ég strax komin með starf sem kennari við skólann og fór svo í kjölfarið í meistaraskólann.

    Feginn því að taka skrefið

    Þarna opnast nýr heimur fyrir mér sem ég hafði ekki fyllilega áttað mig á. Sem er að margar auglýstar stöður á vinnumarkaði krefjast iðnmenntunar. Til að mynda í stjórnunarstörf í tengdum iðnaði og í kennslu. Ég get sótt um þessar stöður í dag og ég upplifi því meira öryggi og frelsi á vinnumarkaði eftir raunfærnimatið. Í dag er ég í háskólanámi sem er nokkuð sem ég hefði ekki getað ímyndað mér fyrir nokkrum árum síðan. Og ef að ég bakka aðeins þá byrjaði þetta allt á einu símtali og eins og ég sagði áður þá er ég feginn að ég tók skrefið. Ég hefði getað sagt nei því að ég átti svolítið erfitt með að mótivera mig. Ég var neikvæður og sá ekki þýðinguna, hvers vegna í ósköpunum ég ætti að vera að þessu, skipti þetta einhverju máli? En svarið er já. Þetta breytti lífi mínu og skipti miklu máli.“

    Kynntu þér raunfærnimat hjá IÐUNNI fræðslusetri

    Hafa samband

    Hafðu samband

    Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband