Viðskipti að færast frá Asíu til Evrópu

Stóraukinn áhugi á ljósmyndun hefur gert það að verkum að útgáfa og sala á ljósmyndabókum hefur aukist á síðustu árum. Marteinn Jónasson prentmiðlari gefur innsýn í starf sitt í nýjasta þætti Augnabliks í iðnaði.

    Marteinn Jónasson er viðskiptafræðingur með margháttaða reynslu af útgáfu. Hann starfaði við eigin útgáfu, blaðaútgáfu og hjá Birtíngi tímaritaútgáfu en það urðu ákveðin tímamót þegar hann fór til starfa hjá Prentsmiðjunni Odda árið 2007. „Ég fór þá að starfa hinum megin borðsins og hef verið þeim megin æ síðan.“ Hann tók að sér að sjá um sölu á prentverki á Ameríkumarkaði árið 2009 og flutti til Bandaríkjanna í ársbyrjun 2010. „Ég starfaði fyrstu árin fyrir Odda en svo stofnaði ég mitt eigið prentmiðlunarfyrirtæki,“ segir hann en ástæðan var sú að Oddi hætti framleiðslu harðspjalda bóka. „Ég þurfti að flytja prentunina til Austur-Evrópu, þetta var árið 2016-2017.“

    Íslenskir forleggjarar sérfróðir

    Þetta var sylla á markaðnum sem hefur í raun alltaf snúist um bókband sem var sérstakt. Mjög stór hluti af íslenska markaðnum snýr að textaverkum, skáldsögum og þvíumlíku. Það er lítið útgefið af ljósmynda -og listaverkabókum á Íslandi. Þetta eru mjög sérhæfð verk. Kúnnarnir mínir og Odda voru mjög sjaldan stór forlög, þetta voru mest gallerí, söfn, fyrirtæki sem voru að gefa út afmælisbækur eða sérrit. Oft og tíðum eru kúnnarnir óvanir prentgögnum og þurfa mikla hjálp, vita ekki hvað örk er eða saurblað.“ Íslenskur markaður sé gjörólíkur og íslenskir forleggjarar sérfróðir um framleiðslu bóka. „Það er mikill munur að eiga við þá og við hönnuði sem hafa ef til vill hannað bæklinga og vefsíður en aldrei bók.“

    Samfélagsmiðlar stækka markaðinn

    Marteinn hefur komið sér ágætlega fyrir á syllunni sem prentmiðlari ljósmynda -og listaverkabóka. „Það sem að gerist með tilkomu Instagram og að við séum öll komin með myndavél í vasann er að almennur áhugi á ljósmyndum eykst. Það er arargrúi af myndum á netinu og þörfin eykst fyrir ljósmyndabækur, það að að draga fram sögur og að ritstýra góðu efni. Útgáfa og sala á ljósmyndabókum hefur aukist. “

    „Getur fengið hvaða lit sem er, svo lengi sem það er svart“

    Marteinn prentar víða í Evrópu og segist nú fá til sín viðskiptavini sem áður prentuðu í Asíu vegna flutningsvandamála í heimsálfunni og hærri kostnaðar. Hann segir kostina við að prenta á Íslandi hafa verið þá sérþekkingu sem bjó í fagfólki í prentsmiðjunni og sveigjanleikinn sem stóð til boða. „Sumir kúnnarnir mínir fá brjálæðislegar hugmyndir um bókband. Í Odda var aldrei sagt, þetta er ekki hægt. Það var spurt; ok, hvernig gerum við þetta? Þetta er erfitt í Austur-Evrópu. Þetta er eins og stundum er sagt í Bosníu: Þú getur fengið hvaða lit sem er af gömlum Ford bíl, svo lengi sem það er svart! Það eru fínar prentsmiðjur sem geta gert eitthvað í áttina fyrir þig en það er allt miklu þyngra í vöfum,“ segir Marteinn og segir kaupanda prentverks þurfa að hafa viðamikla þekkingu á bókaprentun og bókbandi til að fá sem besta þjónustu fyrir viðskiptavininn. Hlustið á meira um bókaprentun í Evrópu, mikilvægi sérfræðiþekkingar, hækkandi pappírsverð og samkeppnisstöðu íslenskar prentsmiðja í spjalli þeirra Gríms Kolbeinssonar og Marteins Jónassonar.

    Hafa samband

    Hafðu samband

    Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband