Glæstur árangur á sveinsprófi

Heimsfaraldurinn rak Helenu í nám

Helena Ýr Steimann
Helena Ýr Steimann

    Helena Ýr Steimann lauk nýverið sveinsprófi í málaraiðn með glæstum árangri. Hún fékk tíu bæði í bóklegum og verklegum hluta prófsins sem hefur ekki gerst í áraraðir.

    Faðir hennar Jóhann Viktor Steimann er málarameistari en Helena hafði þó aldrei leitt hugann að því að vinna við fagið fyrr en heimsfaraldurinn skall á.

    „Ég var að reka bar í upphafi heimsfaraldursins og þegar samkomubann þrengdi að rekstrinum og við horfðum upp á sífelldar lokanir þá get ég ekki setið aðgerðalaus. Ég ræddi við pabba og bað um að fá að vinna hjá honum og ákvað að hefja nám í málaraiðn. Ég féll eiginlega strax fyrir faginu og það á mjög vel við mig. Þetta er skapandi starf og róandi. Ég hætti alveg að vinna á barnum og vinn bara við þetta í dag.“

    Hvaða eiginleikum þarf góður málari að búa yfir? „Ég er mjög þolinmóð og geta dundað mér endalaust. Ég hef líka mikinn áhuga á faginu og finnst gaman að prófa mig áfram með liti og form. Í gegnum tíðina hefur ég leikið mér að því að mála myndir. Ég hugsa að þegar þolinmæði og áhugi fara saman þá skili það miklu.“

    Helena segir það í raun hafa komið sér á óvart hversu gefandi henni finnst að starfa sem málari. „Ég hafði aldrei leitt hugann að því að starfa við þetta þótt það sé hefð fyrir því innan fjölskyldunnar. Systur mínar unnu fyrir pabba en aldrei ég. Ég var alltaf að gera eitthvað annað.“

    Og Helena horfir ekki um öxl enda nóg að gera í gefandi starfi. „Það bara brjálað að gera og sérstaklega eftir kóvid, það eru allir að huga að heimilinu. Ég glími ekki við aðgerðaleysi lengur, nú glími ég eiginlega frekar við það að hafa of mikið að gera.“

    Hafa samband

    Hafðu samband

    Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband