Íslenska eldhúsið - staða og framtíð
Fanney Dóra Sigurjónsdóttir er matreiðslumaður með ástríðu fyrir íslensku hráefni. Hún segir mikla möguleika liggja í íslenska eldhúsinu.
Fanney Dóra segir að við Íslendingar séu orðnir stoltari af innlendri matvælaframleiðslu og segir það endurspeglast í matseðlum margra veitingastaða. Mjög mörg veitingahús eru með flott hráefni á matseðli segir hún.
Fanney Dóra er á því að við eigum að hætta að sveifla súrmat og brennivíni framan í túrista eins og það sé í matinn hjá okkur hvern dag. Við eigum frábært fagfólk, góðar vörur og fallegt land segir hún og bætir við að stór hluti af matarupplifun sé að borða mat frá því svæði sem við ferðumst til.
Matarupplifun er mikill partur af menningunni og ég held að ferðamenn sem koma hingað til lands séu einnig að leita eftir því að kynna sér þá hlið á landinu alveg eins og að sjá norðurljós segir hún.
Hún segir að íslenskir kokkar séu metnaðarfullir og vilji vinna með íslenskt hráefni. Þeir eru óhræddir við að nýta hráefni sem er ekki hefðbundið. Ég borðaði t.d. beitukóng á veitingastað um daginn segir hún sem var mjög skemmtileg upplifun og minnir okkur á að við getum boðið upp á mikla fjölbreytni.
Við eigum að vera dugleg að nota íslensku jurtirnar eins og t.d. hvönn, kerfil og skessujurt. Þær voru nýttar betur hér áður fyrr og eru að koma inn aftur. Þannig sköpum við íslenskt bragð og sérstöðu segir hún að lokum.