Nýtt námskeið í loftþéttleikamælingum í haust
Sérþekking sótt til RetroTec, eins fremsta framleiðanda loftþéttleikabúnaðar í Evrópu
Fyrr á þessu ári hlaut Iðan styrk úr Aski mannvirkjarannsóknarsjóði, til þess að efla fræðslu um loftþéttleikamælingar bygginga.
Einn liður í verkefninu var að fara og heimsækja einn fremsta framleiðanda loftþéttleikabúnaðar í Evrópu, RetroTec. Markmið heimsóknarinnar var að afla sérþekkingar í loftþéttleikamælingum svo hægt sé að miðla þekkingunni áfram til iðnaðarins.
Í haust verður haldið námskeið í loftþéttleikamælingum og BYKO mun leggja til hús sem verður hægt að mæla loftþéttleikann í.
Loftþéttleikapróf geta sýnt fram á loftleka í húsum. Ef ekki hefur verið gengið frá rakasperru eða öðrum þéttingum nægilega vel getur það haft í för með sér að kynding í húsinu sleppi auðveldlega og húsið haldi því ekki hita nægilega vel inni. Einnig getur blásið köldu inn og þarf því sífellt að vera kynda húsið. Loftþéttleikamælingar geta einnig komið í veg fyrir rakamyndun í útveggjum sem síðar meir geta leitt til mygluvandamála.
Íslenska byggingareglugerðin segir að hús eigi að vera nægilega þétt svo ekki „leki” meira en 3 m3/h/m2 út úr húsinu. Ekki hefur verið horft mikið á þessa kröfu en reikna má með að vel byggð hús standist hana. Með því að vekja athygli á loftþéttleika í húsum á Íslandi væri jafnvel hægt að bæta þessa kröfu í byggingareglugerð og koma þannig í veg fyrir raka og mygluvandamál og bæta orkunýtni húsa.