Iðan fræðslusetur leitar að nýjum framkvæmdastjóra
Nýir tímar hjá Iðunni
Hildur Elín Vignir, framkvæmdastjóri Iðunnar fræðsluseturs, hefur óskað eftir að láta af störfum sem framkvæmdastjóri félagsins eftir 18 ára farsælt starf. Hildur Elín mun ljúka störfum í dag 8. apríl, en Brynja Blomsterberg (brynja@idan.is) tekur við keflinu þar til annar framkvæmdastjóri verður ráðinn. Hildur Elín verður staðgengli innan handar fram í miðjan maí.
„Ég tel að þetta sé góður tímapunktur fyrir mig og Iðuna til breytinga, nýr framkvæmdastjóri mun án efa bera með sér ferska vinda og eftir 18 ára farsælt starf með öflugum hópi starfsmanna er líka góður tími fyrir mig að takast á við nýjar áskoranir,” segir Hildur Elín.
Stjórn Iðunnar vill koma á framfæri þökkum til Hildar Elínar fyrir farsælt starf í 18 ár en hún tók við starfinu við stofnun Iðunnar fræðslusetur í maí árið 2006.
Um Iðuna fræðslusetur
Iðan er fræðslusetur í iðnaði og sinnir símenntun starfsmanna í bílgreinum, bygginga- og mannvirkjagreinum, málm- og véltæknigreinum, prent- og miðlunargreinum og matvæla- og veitingagreinum. Námsframboðið er fjölbreytt og í stöðugri þróun enda er það þýðingarmikið hlutverk að sjá fyrirtækjum og einstaklingum fyrir nýrri þekkingu og færni eftir því sem þörf krefur.