Byltingarkennd nýjung í kælikerfum byggð á íslensku hugviti og hönnun
Iðan fræðslusetur fór á vettvang í Kælitækni og hitti Elís H. Sigurjónsson, tæknistjóra fyrirtækisins. Elís segir frá kolsýru-kælikerfi sem fyrirtækið hefur verið að þróa. Kerfið er umhverfisvænt og kælimiðillinn íslenskt hráefni. Tæknin hefur gefið góða raun þegar kemur að nýtni og viðhaldi og getur verið að spara allt að 60% í orkunotkun.
Þegar Elís H. Sigurjónsson tæknistjóri Kælitækni flutti aftur til Íslands árið 2015 að loknu námi og vinnu í Danmörku áttaði hann sig á því að markaður fyrir vistvæn kælikerfi var ekki til staðar hér á landi. „Ég átta mig á því að kælibransinn er 25 árum á eftir í tíma, segir Elís sem starfaði áður í Danmörku þar sem hann kom að þróun kolsýrukerfa með Danfoss og öðrum aðilum. „Ég horfi bara á markaðinn og hugsa, þetta er risaverkefni, innleiðing á vistvænum kælikerfum er bara engin.“
Kælikerfin hönnuð fyrir íslenskar aðstæður
Elís hóf verkefnavinnu með samstarfsfélaga sínum Ingvari Kristinssyni sem var opinn fyrir nýjungum. Upphaf vinnunnar var brösótt og þeir fundu fyrir mótstöðu verktaka og á verkfræðistofum en létu það ekki á sig fá. „Við keyrum á þeirri hugsun að við erum á Íslandi, það er lágt hitastig hér og við eigum að hanna kælikerfin eftir þeim aðstæðum. Eins góðri og ódýrri keyslu og mögulega hægt er. Það hefur alltaf verið okkar mottó,“ segir Elís sem segir þá fljótlega hafa áttað sig á því að litlir viðskiptavinir vilji líka fara í vistvæna kælimiðla.
Rafmagnskostnaður lækkar um allt að 80%
„Það er risagat á markaði sem þarf að loka og Carel kemur inn í þróunarvinnuna. „Þeir sjá þetta líka. Það er enginn að framleiða kerfi eins og þetta. Við förum í þróunarvinnu fyrir fjórum árum síðan og settum okkur markmið: Við ætlum að nota íslensku kolsýru eins og við getum og hanna vélakerfi sem eru fjölnota, ein lausn fyrir alla. Það var markmiðið okkar, þetta átti að vera ódýrt, auðvelt í uppsetningu og þjónustu og geta nýst mörgum og það er það sem við erum með í dag,“ segir Elís um Heosboxin sem er lína af vélakerfum sem keyra á kolsýru sem kælimiðli. „Við setjum fyrstu prótótýpuna niður í kjallaranum á Hagkaup í Skeifunni og það kerfi er búið að keyra núna í þrjú og hálft ár án þess að þurfa nokkuð viðhald. Það hafa engin vandamál komið upp. Það er það sem við erum að sjá, það þarf litla þjónustu og viðhald og að auki lækkar rafmagnskostnaður niður um allt að 80%.“