Fréttir
16. september 2025

Bifvélavirki í fyrsta skipti á EuroSkills

Bifvélavirki í fyrsta skipti á EuroSkills
Adam Stefánsson er fyrsti bifvélavirkinn til að keppa fyrir hönd Íslands á EuroSkills

Fyrsti íslenski bifvélavirkinn tók þátt í Evrópukeppni ungra iðnaðarmanna EuroSkills sem fram fór í Herning í Dannmörku dagana 10-12 september.

Adam Stefánsson, 24 ára bifvélavirki sem starfar hjá Bifreiðaverkstæði Högna í Hafnafirði var valinn síðasta vor til að fara út og keppa fyrir Íslands hönd. Í sumar fóru fram stífar æfingar undir handleiðslu Sveinbjörns Björnssonar sem var einnig svokallaður „expert“ á keppninni, sem er einskonar dómari. Undirbúningurinn fólst meðal annars í því að æfa bilanagreiningu, stilla ADAS myndavél, vinna við rafbíla, hjólastilla og mæla upp og meta vél.

Sveinbjörn og Adam að loknum 3 erfiðum keppnisdögum

Keppnin var mjög krefjandi og skiptist upp í 15 verkefni og höfðu keppendur um 1 klst að leysa hvert og eitt. Adam stóð sig mjög vel, sérstaklega í ljósi þess að Ísland hefur ekki keppt í þessari iðngrein áður og lenti í 12. sæti af 18 þátttakendum með 678 stig og rétt rúmlega 40 stigum frá verðlaunapalli, en mest er hægt að fá 1000 stig.

Adam á fullu í bilanagreiningar verkefni

Keppendur frá Íslandi voru þrettán talsins og var þeim ásamt fylgdarliði og aðstandendum boðið á Bessastaði daginn eftir heimkomu þar sem þau fengu afhenda viðurkenningu frá frú Höllu Tómasdóttur forseta. Ísland kom ekki tómhent heim því Gunnar Guðmundsson keppandi í iðnaðarrafmagni hlaut brons verðlaun ásamt því að keppandi í matreiðslu og húsarafmagni fengu svokallaða medallion of excellence sem er veitt fyrir að ná 700 stigum.

Sveinbjörn og Adam ásamt Sigurði leiðtoga bílgreina hjá Iðunni í heimsókn hjá Höllu á Bessastöum
Fleiri fréttir