Fréttir
21. nóvember 2025

Bókin áfram sterk í prenti

Bókin áfram sterk í prenti
Charles Jarrold framkvæmdastjóri BPIF veðjar á virðisaukandi þjónustu í prentiðnaði.

Persónusniðnar lausnir, virðisaukandi þjónusta til fyrirtækja, meiri áhersla á sjálfvirkni og stafræna prentun. Þetta er vegvísir til vaxtar í prentiðnaði að mati Charles Jarrold framkvæmdastjóra BPIF (British Printing Industries Federation).

Viðtal Charles var bjartsýnn á horfur í prent- og pappírsiðnaði á ráðstefnunni Power of Print sem fór fram í London þann 4.nóvember síðastliðinn.

Á ráðstefnunni fór Charles yfir helstu staðreyndir og tölfræðileg gögn um rekstur, áskoranir og tækifæri prentfyrirtækja.

Þrátt fyrir að himinn og haf sé á milli íslensks og bresks prent- og pappírsmarkaðar er áhugavert að kynna sér strauma og stefnur og þá þróun sem er að verða í framboði þjónustu. Áherslur á heimsmarkaði skila sér alltaf hingað til lands þótt að þær verði auðvitað í smærri mynd.

Breskur prent- og pappírsmarkaður er sjá fimmti stærsti í heimi. „Við erum loksins að sjá vöxt aftur eftir tímabil stöðnunar og samdráttar,“ segir Charles og segist merkja aukningu umbúðum, skiltagerð og miðaprentun. Hann varar við því að horfa of mikið í magntölur og segir virðisaukandi þjónustu í prentiðnaði einnig skila meiri ábata.

Hver er þróunin?

„Þróunin til langtíma er að auglýsingaprent er að dragast saman í magni. Bókaprent hefur haldist stöðugt til lengri tíma. Og það er merkilegt því fólk hefur átt von á samdrætti, jafnvel hruni í prentun bóka sem varð aldrei. Dagblaðaprent heldur áfram dragast saman en umbúðir og miðaprentun vex stöðugt og er líklegt til að halda áfram að vaxa.

Það er mikið líf í bókaprenti í Bretlandi og reyndar í Evrópu líka samkvæmt Charles.

Magn fyrir utan umbúðir er í heildina að dragast saman í prentiðnaði en verðmæti og gæði þjónustunnar er meira,“ ítrekar Charles.

Breskur iðnaður glímir við hræringar á alþjóðasviðinu. „Við höfum náð að halda prentiðnaðinum opnum þrátt fyrir Brexit,“ en bætti því við að nú hefðu helst áhrif á útflutning miklar hræringar í bandarískum stjórnmálum.

Hann nefnir einnig háan launakostnað sem hefur farið stigvaxandi. Það vandamál sé ekki bundið við prentgreinar.

Hvernig skilar prentiðnaður meiri ábata?

Með því að taka þátt í tækniþróun og lausnum sem skila viðskiptavinum meira virði,“ segir hann og bendir á lausnir sem Royal Mail hefur þróað í gegnum fyrirtæki sitt Market Reach og felur í sér greiningar fyrir viðskiptavini og snjöllum persónusniðnum lausnum í markpósti. „Í stuttu máli verður meiri ábati með því að búa til meiri virðisaukandi þjónustu,“ segir Charles.

Burðarás í atvinnulífi Bretlands

Hann tekur fram að breskur prentiðnaður sé mikilvægur hluti efnahagslífsins. Veltan er upp á 13,7 milljarða punda, framlag til landsframleiðslu upp á 5,9 milljarða punda og um 93.000 starfsmenn starfa í prentiðnaði í 6.800 fyrirtækjum. „Greinin er einn burðarása í atvinnulífi Bretlands og gegnir sérlega stóru hlutverki á neytendamarkaði“ segir hann.

Dagblaðaprentun er gróskumikil í Bretlandi en dregst þar saman eins og annars staðar.

Hverjar eru helstu áskoranir í breskum prentiðnaði?

„Okkur vantar meira af fagfólki til vinnu,“ segir Charles og segir það með stærstu áskorunum prentiðnaðar næstu misserin en BPIF heldur einnig utan um starfsþjálfun í prentiðnaði.

Þá nefnir Charles að launakostnaður hafi hækkað mikið umfram spár. Nær öll prentfyrirtæki í Bretlandi nefni að launakostnaður og skortur á fagfólki muni standa í vegi fyrir frekari vexti. Við því þurfi að bregðast með meiri áherslu á þjálfun og starfsnám og stuðningi við nýsköpun innan greinarinnar.

Hvers konar þjálfun?

„Með fleiri námskeiðum í stafrænni prentun, sjálfvirkni og í sjálfbærum efnum,“ nefnir Charles og segist stikla á stóru. Það sé hins vegar klárt mál að sjálfbærni sé lykilhæfni auk meiri þekkingar á nýjustu tækni og sjálfvirkni í prentiðnaði.

„Niðurstaðan er að við erum þrátt fyrir allt sterkari en fyrr. Við sem iðnaður sýnum sveigjanleika og ef að við höldum áfram að stunda nýsköpun þá eru spennandi tækifæri framundan.“

Áhugasamir geta skoðað kynningu Charles hér.

Fleiri fréttir