Jonathan Tame, framkvæmdastjóri Two Sides í Evrópu var á meðal skipuleggjenda alþjóðlegu ráðstefnunnar Power of Print sem haldin var í Stationers’ Hall við St. Paul’s-dómkirkjuna í London.
„Við höfum haldið Power of Print árlega í London í meira en áratug,“ segir Jonathan. „Markmiðið er að upplýsa og tengja saman leiðtoga í prent- og miðlunargreinum og fara yfir það sem er efst á baugi hverju sinni. Þetta er vettvangur þar sem fagfólk í prentiðnaði hittist, deilir reynslu og mótar framtíðina.“
Ráðstefnan hefur vaxið jafnt og þétt og dregur nú til sín um 200 leiðtoga í prentgreinum víðs vegar að úr Evrópu. Skipuleggjendur eru Two Sides sem eru sjálfstæð samtök sem hafa að megintilgangi að fræða um sjálfbærni prent- og pappírsiðnaðar, BPIF (British Printing Industries Federation), Canon, Fedrigoni og Printweek.
Markpóstur, gögn og sjálfbærni í brennidepli
Spurður um helstu áherslur ráðstefnunnar í ár nefnir Jonathan sérstaklega markpóst og framtíð hans. „Við lögðum ríka áherslu á hvernig gögn og gervigreind eru nýtt til að skilja kauphegðun fólks og gera markaðssetningu markvissari,“ útskýrir hann.
Sjálfbærni var einnig rauður þráður í umræðunni, ekki síst þegar kemur að prenti, pappír og pappírsumbúðum. „Of oft eru pappír og prentaðar vörur settar í neikvætt samhengi í umræðu um umhverfismál. Rannsóknir okkar hjá Two Sides sýna að neytendur skilja ekki alltaf hversu sjálfbær pappír í raun er. Það er okkar hlutverk að segja þá sögu betur,“ segir hann.
Bækur og umbúðir halda sterkri stöðu
Þrátt fyrir aukið stafrænt framboð hafa ákveðnir hlutar prentiðnaðarins sýnt óvæntan styrk. „Bókaprentun hefur ekkert gefið eftir síðustu fimm ár. Eftirspurn og sala á bókum hefur ekki dregist saman, sem er athyglisvert í ljósi þess hversu mikið stafrænt efni hefur bæst við á sama tíma,“ bendir Jonathan á.
„Framleiðsla á umbúðir úr pappír er í miklum vexti og ekkert bendir til þess að lát verði á. Þar sameinast kröfur um sjálfbærni, virkni og sterka upplifun fyrir neytendur.“
Falin tækifæri í stafrænum hávaða
Að mati Jonathan leynast tækifæri fyrir prentiðnaðinn einmitt í stafræna heiminum og of þungri áherslu á hann í markaðsstarfi undanfarin ár. „Við lifum í stafrænum heimi og lengi hefur verið haldið fram að stafrænar lausnir séu besta leiðin. En stafrænn hávaði er orðinn mikill. Prentað efni sker sig úr, er metið að verðleikum og fær meiri athygli.“
Hann segir tölfræði sýna að prent sé áhrifaríkt þegar kemur að trausti og sannfæringu. „Ef fyrirtæki vilja byggja upp sterka og trúverðuga markaðsstefnu, þá er prent ómissandi hluti af henni.“
Aðspurður beint hvort prentið sé dautt svarar Jonathan hiklaust: „Nei. Besti árangurinn næst þegar prentað og stafrænt markaðsefni vinna saman. Prentið er ekki andstæða stafrænnar þróunar – það er hluti af henni.“