Fjöldi fulltrúa úr iðngreinum á Norðurlandi, kennarar og starfsfólk fyrirtækja komu saman á opnum fundi á Akureyri í gær þar sem fjallað var um stöðu símenntunar í landshlutanum og hlutverk Iðunnar fræðsluseturs.
Fundinum stýrði fjölmiðlamaðurinn Stefán Valmundarson og hófst hann á ávarpi Jóhanns Rúnars Sigurðssonar, formanns FMA. Hann ítrekaði gott samstarf á milli VMA og Iðunnar og lagði áherslu á mikilvægi þess að styrkja tengslin við Norðurland. Fagfólk í landshlutanum þyrfti að tala meira og oftar um sína hagsmuni.
Iðan vill móta fræðslu út frá þörfum fagfólks
Vilborg Helga Harðardóttir, framkvæmdastjóri Iðunnar, kynnti starfsemi og framtíðarsýn fræðslusetursins. Hún fór yfir lykiltölur og minnti á ferðastyrki, lægri námskeiðsgjöld fyrir félagsmenn, Áttina og raunfærnimat.Vilborg lagði áherslu á að Iðan vilji móta þjónustu og fræðslu í gegnum beint samtal við félagsfólk og fyrirtæki og hvatti fólk til að skrá sig á námskeið, óháð því hvaða sviði þau tilheyrðu.
Leiðtogar nokkurra greinasviða Iðunnar – Óskar Grétarsson fyrir málm- og véltæknigreinar, Ólafur Ástgeirsson fyrir bygginga- og mannvirkjagreinar og Sigurður Svavar Indriðason fyrir bílgreinar – kynntu síðan stöðu fræðslu í sínum greinum.
Óskar lýsti Iðunni sem „brúnni að þekkingu“ og minnti á að sama verð gildi um allt land; með lágmark fjögurra þátttakenda sé hægt að halda námskeið hvar sem er. Þörfin ætti að móta námskeiðin og því væri mikilvægt að félagsfólk láti í sér heyra.
Ólafur fór yfir þau námskeið sem mest eru sótt í bygginga- og mannvirkjagreinum og nefndi meðal annars rakamælingar, gluggaþéttingar, frágang votrýma og vistvænar byggingar. Hann benti á að skortur á aðstöðu til verklegrar kennslu væri áskorun, meðal annars hjá VMA.
Sigurður lýsti miklum tæknibreytingum í bílgreinum og vinsældum námskeiða um rafbíla, kælimiðla, rafmagnsgrunn, ADAS-kerfi og ál í yfirbyggingum. Hann sagði það hlutverk sitt að fylgjast með nýjungum, bæði hérlendis og erlendis, og koma þeirri þekkingu til fagfólks í greininni.
Í kaffistofuspjalli, sem Harpa Björg Guðfinnsdóttir opnaði með samantekt úr spurningakönnun meðal fundargesta, tóku þátt fulltrúar frá Slippnum, Kraftbílum, Meistarafélagi byggingamanna á Norðurlandi (MBN), SI og VMA.
Félagsfólk vill taka þátt í að efla símenntun
Fram kom að þátttaka í námskeiðum Iðunnar hefur almennt gengið vel og ánægja með fræðsluna er mikil, en að betur mætti gera í að skapa vettvang þar sem félagsfólk getur óskað eftir námskeiðum og komið hugmyndum á framfæri. Einnig var rætt um mikilvægi fræðslu fyrir kennara í verkmenntaskólum og að fylgjast þurfi betur með brautskráðum nemendum og hvetja þá til símenntunar.
Fulltrúar frá SI og VMA bentu á að Ísland standi vel að vígi í sí- og endurmenntun í alþjóðlegum samanburði, en að fjölga þurfi nemendaplássum í iðnnámi og nýta betur möguleika raunfærnimats fyrir fólk með starfsreynslu.
Í umræðum úr sal var kallað eftir aukinni vitund um starfsemi Iðunnar og félagsfólk var einhuga um að vilja taka þátt í að efla símenntun á Norðurlandi með betra samtali á milli fyrirtækja, skóla, fagfélaga og Iðunnar fræðsluseturs.