Viðtal við Michaelu Muller-Kaya, framkvæmdastjóra Arcan í Þýskalandi.
Michaela Muller-Kaya, framkvæmdastjóri Arcan í Þýskalandi, heimsótti Ísland á dögunum og kenndi á námskeiðinu „Vatnsþétting steinsteyptra mannvirkja með inndælingu“, í samstarfi við Fagefni ehf.
Námskeiðið sem er haldið reglulega hjá Iðunni fjallar um vatnsþéttingu steinsteyptra mannvirkja með nútíma inndælingatækni. Lögð er áhersla á kerfi, framkvæmd og lausnir sem tryggja langvarandi árangur. Þátttakendum bauðst jafnframt að koma með sín eigin úrlausnarefni, sem voru greind og rædd í sameiningu.
Mikill Íslandsvinur
Michaela segir námskeiðið hafa tekist afar vel.„Þátttakendur voru mjög áhugasamir, “ segir hún og bætir við að hún telji líklegt að námskeiðið leiði til frekara samstarfs og fleiri verkefna í framhaldinu.
Hún hefur komið reglulega til Íslands undanfarin ár og kennt fagfólki á námskeiðum Iðunnar. „Ég held að ég hafi komið átta eða níu sinnum til landsins. Ég elska Ísland og mér finnst alltaf jafn gaman að koma. Áhugi og metnaður fagfólks er mikill,“ segir Michaela.
Sterk fagþekking til staðar
Að hennar mati býr íslenskt fagfólk yfir mikilli fagþekkingu sem hefur byggst jafnt og þétt upp síðustu ár. „Þekkingin hér er orðin mjög sterk og hún hefur greinilega þróast skref fyrir skref með reynslu og fræðslu,“ segir hún. Ef eitthvað mætti bæta telur hún tækjakostinn geta verið fjölbreyttari. „Tækjabúnaðurinn mættu vera betri og víðtækari, enda skiptir hann miklu máli þegar unnið er með flóknar aðstæður,“ bætir hún við.
Michaela rifjar jafnframt upp uppbyggingu samstarfsins við íslenska aðila. Fyrstu heimsóknir hennar til Íslands voru fyrir um átta til níu árum síðan og þá var samstarfið á frumstigi. Með tímanum hefur það þróast í sterkt faglegt og viðskiptalegt samband sem byggt hefur verið upp frá grunni.
Þegar Fagefni ehf. hóf innflutning á efnum Arcan var þekking á inndælingatækni takmörkuð, en hún hefur byggst markvisst upp með fræðslu, þjálfun og reynslu.
Tekur tíma að byggja upp verklega reynslu„Það tekur tíma að byggja upp raunverulega fagþekkingu og verklega reynslu,“ segir Michaela. „Það eru til svo mörg mismunandi efni og það er lykilatriði að vita hvar og hvenær á að nota hvert þeirra.“
Aðspurð um algengustu ástæður þess að vatnsþéttikerfi bregðast – jafnvel þegar rétt efni eru notuð – nefnir hún skort á greiningu sem helsta vandann. „Algengasta mistökin eru að greina ekki vandann nógu vel. Fólk veit ekki nákvæmlega hvað er að gerast inni í veggnum, hversu mikið vatn er þar eða hvaðan það kemur,“ segir hún.
Tímapressa og álag geta gert illt verra
Hún bendir jafnframt á að tímapressa og álag geti haft mikil áhrif á ákvarðanatöku. „Þegar það er leki og vatn flæðir inn er mikil pressa. Þá er hætt við að ákvarðanir séu teknar í flýti – borað á röngum stað eða rangt efni valið,“ segir Michaela.
Að lokum var hún beðin um að gefa eitt gott ráð til fagfólks. „Verið forvitin og hættið aldrei að vera forvitin,“ segir hún. „Forvitni stóreflir fólk og gerir flest öll viðfangsefni miklu spennandi.“