Fréttir
27. nóvember 2025

Framtíðin er rafmögnuð í bílgreinum

Framtíðin er rafmögnuð í bílgreinum
Rob Usherwood hefur kennt íslensku fagfólki í bílgreinum undanfarnar vikur og miðlar af áratuga reynslu.

„Tækninni fer sífellt fram og framtíðin er björt,“ segir Rob Usherwood sérfræðingur í raf- og tvinnbílum. Hann hefur kennt íslensku fagfólki í bílgreinum undanfarnar vikur og miðlar af áratuga reynslu. 

Rob hefur fylgst með gríðarlegum breytingum í bílgreininni á starfsferlinum, sérstaklega á síðustu tíu árum þegar nær allir framleiðendur – allt frá fólksbílum til strætisvagna og vörubíla – hafa tekið rafknúnar lausnir í notkun. Hann hvetur tæknimenn til að taka þessari þróun fagnandi.

Drægnivandamál sjaldgæf

Rob er sannfærður um að rafbílarnir séu komnir til að vera og segir þróunina hraða. Þau vandamál sem fólk taldi fyrir nokkrum árum hindra rafvæðingu bíla séu hverfandi í dag. „Fólk kemst mun lengra en það heldur á rafbílum og drægnivandamál eru raunverulega sjaldgæf í akstri,“ segir hann og segist ennfremur telja fólk kunna meta það að geta hlaðið bílana sína heima. 

Bilanagreiningar og viðgerðir á rafhlöðum

Með komu sinni til Íslands vonast hann til að styrkja næstu kynslóð  í greininni og tryggja að fagfólk sé vel undirbúið fyrir rafvædda framtíð.

Námskeiðið sem hann hefur haldið hér á landi miðar að því að efla færni þátttakenda, auka öryggi í vinnu og tryggja að viðgerðir takist í fyrsta skipti.

Sérstök áhersla er lögð á bilanagreiningu og helstu áskoranir sem koma upp í nýjustu tegundum rafknúinna ökutækja. Einnig er farið ítarlega yfir rafhlöður, viðhald þeirra og endurheimt. Hann segir algenga mýtu að ekki sé hægt að gera við rafhlöður, en staðfestir að slíkt sé bæði mögulegt og hagkvæmt.

„Við kennum tæknimönnum hvernig eigi að jafna rafhlöður og koma þeim aftur í notkun á áhrifaríkan hátt,“ segir hann og bætir við að markmiðið sé að tryggja öryggi og fagmennsku þeirra sem vinna við síbreytilega tækni bíla.

Fleiri fréttir