Fréttir
12. desember 2025

Fyrsti hópur útskrifaður úr nýju verkstjóranámi hjá Iðunni fræðslusetri

Fyrsti hópur útskrifaður úr nýju verkstjóranámi hjá Iðunni fræðslusetri
Flottur hópur verkstjóra fagnaði í Vatnagörðum í vikunni.

Í vikunni útskrifaðist fyrsti hópur verkstjóra úr nýju námskeiði Iðunnar fræðsluseturs, Verkstjóri í iðnaði – ábyrgð og verksvið. Alls luku tíu þátttakendur náminu, en hópurinn samanstóð af einstaklingum með fjölbreyttan bakgrunn úr iðnaði. 

„Námskeiðið mun gagnast í daglegum störfum mínum sem verkefnastjóri í umsjón fasteigna. Þá sér í lagi í samskiptum við undirverktaka, mannlegum samskiptum og öryggismálum,“ segir Baldur Smári frá Reitum fasteignafélagi einn útskriftarnema. 

Undir þetta tók Högni frá Alefli og segir miklu máli skipta að ná betur utan um daginn „og sjá hluti sem betur mætti fara frá degi til dags.“

Námskeiðið er hagnýtt og sérsniðið að þörfum verkstjóra, nýrra stjórnenda og þeirra sem sinna daglegri stjórn og skipulagi starfsfólks á vinnustað. Markmiðið er að efla faglega hæfni þátttakenda í leiðtogahlutverki og stjórnun, auk þess að styrkja skilning þeirra á ábyrgð, samskiptum og teymisvinnu.

Verkstjóri Í Iðnaði

Á námskeiðinu var meðal annars fjallað um stjórnendahlutverkið, sjálfsþekkingu og gildi, réttindi og skyldur verkstjóra og starfsmanna, samskipti og leiðtogafærni, öryggis- og vinnuverndarmál, gæðastjórnun og umhverfisvitund. Að námi loknu hafa þátttakendur fengið tæki og aðferðir til að efla jákvæða teymismenningu, styðja starfsfólk í daglegu starfi og stuðla að öruggum og skilvirkum vinnustað.

Kennsla fór fram í staðnámi hjá Iðunni fræðslusetri í Vatnagörðum í Reykjavík og næsta námskeið verður haldið 28. janúar til 4. mars 2026. Kennarar námskeiðsins eru Berglind Björk Hreinsdóttir og Harpa Þrastardóttir, stjórnendaráðgjafar.

Fleiri fréttir