Iðan tók þátt í Iðnaðarsýningunni 2025, sem fór fram í Laugardalshöll dagana 9. til 11. október sl. Í ár var sérstök áhersla lögð á að kynna mannvirkjagerð, orku, innviði, vistvænar lausnir og hönnun.
Sýninguna sóttu nærri 40 þúsund gestir, bæði fagfólk í iðnaði og áhugafólk. Gestafjöldinn endurspeglar vel hversu mikil stoð íslenskur iðnaður er í íslensku samfélagi, enda skapa iðngreinar um 40% útflutningstekna þjóðarinnar.
Starfsfólk Iðunnar hitti fjölda fagfólks og fræddi það um gildi símenntunar og mikilvæga þjónustu Iðunnar, svo sem raunfærnimat og ráðgjöf. Það skiptir okkur miklu máli að eiga gott samtal við félagsfólk okkar og komu fram margar góðar hugmyndir að námskeiðum sem verða teknar til skoðunar.
Að sjálfsögðu var brugðið á leik og gestir fengu að spreyta sig á getraun. Á staðnum var þrívíddarprentari og þar var verið að prenta út hlut sem tengdist iðnaði. Gestir komu með margar skemmtilegar ágiskanir — sú frumlegasta var „spælegg!“ Rétt svar var öryggishjálmur og var nafn Helga Þórs, pípulagningarmanns hjá Aðallögnum, dregið úr pottinum.
Hann fær að launum sæti á námskeiðinu 3D prentun í iðnaði og þrívíddarprentara af gerðinni Bambu Lab A1 Combo. Á námskeiðinu er farið yfir allt ferlið í 3D prentun í iðnaði.Helgi Þór var himinlifandi með vinninginn og sagðist hlakka til að sækja námskeiðið, sem hefur verið mjög vinsælt meðal félagsfólks Iðunnar.