Iðan fræðslusetur kynnti þjónustu sína á tveimur stórum viðburðum, Mannauðsdeginum í Hörpu og Starfamessunni á Vesturlandi.
Mannauðsdagurinn í ár bar yfirskriftina: „Drifkraftur breytinga liggur í mannauði fyrirtækjanna.“
Um er að ræða eina stærstu ráðstefnu landsins á sviði mannauðsmála og stjórnunar. Í ár komu saman yfir 1.200 ráðstefnugestir ásamt 140 fyrirtækjum sem kynntu þjónustu sína.
Iðan fræðslusetur tók virkan þátt og kynnti námskeið á matreiðslu- og veitingasviði auk leiða til að efla hæfni starfsfólks í iðnaði.
Á Starfamessu 2025 kynnti Iðan fjölbreytt námstækifæri og fræðsluleiðir fyrir grunn- og framhaldsskólanema. Markmið messunnar er að tengja saman atvinnulífið og ungt fólk og auka vitund um þá menntun og færni sem skiptir máli í framtíðarstörfum.
„Það er mikill innblástur að taka þátt í tveimur stórum viðburðum samdægurs og upplifa kraftinn sem býr í íslenskum iðngreinum. Fyrir okkur hjá Iðunni skiptir miklu máli að eiga gott samtal við mannauðsfólk og stjórnendur um þróun og framboð sí- og endurmenntunar í iðnaði en ekki síður að sjá hve áhugi ungs fólks á iðngreinum fer ört vaxandi. Framtíðin er björt og hlutverk Iðunnar sjaldan verið jafn mikilvægt,“ segir Sólveig Kolbrún Pálsdóttir, nýr markaðsstjóri Iðunnar fræðsluseturs.