Íslenski landsliðshópurinn er kominn heim eftir ánægjulega og árangursríka viku á Evrópumóti iðngreina sem haldið var í Herning í Danmörku í vikunni. Í dag mun forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, taka á móti hópnum á Bessastöðum. Árangur landsliðsins er sérlega glæstur í ár og hlaut Gunnar Guðmundsson keppandi í iðnaðarrafmagni bronsverðlaun.
Verðlaunaafhending og lokahátíðin fóru fram á laugardagskvöldi og þá kom í ljós að Gunnar hafði hlotið 719 stig í keppninni. Aðeins munaði tveimur stigum upp í silfur, sem Martin Riegler frá Austurríki vann með 721 stig, en gullið fór til Philip Svensson frá Svíþjóð sem náði 737 stigum.
Tveir aðrir íslenskir keppendur fengu sérstaka viðurkenningu, medal of excellence, fyrir framúrskarandi árangur.
Auk þess hlaut Hildur Magnúsdóttir, keppandi í málaraiðn, sérstaka viðurkenningu fyrir hröð og fáguð vinnubrögð í sjálfri keppninni.
Á mótinu var keppt í 38 iðn- og verkgreinum. Ísland átti fulltrúa í 13 þeirra, auk 14 „experta“ í hlutverki þjálfara og dómara í keppninni. Íslenski hópurinn taldi samtals 41 manns.
Iðan fræðslusetur studdi dyggilega við sínar faggreinar sem tóku þátt í ár. „Þátttaka í keppni sem þessari veitir okkar framúrskarandi fagfólki dýmæta reynslu sem og tækifæri til að kynnast kollegum frá Evrópu. Við getum verið afar stolt af íslenska hópnum sem tók þátt fyrir Íslands hönd í ár. Frammistaðan glæsileg og stemmningin í hópnum frábær,“ segir Vilborg Helga Harðardóttir framkvæmdastjóri Iðunnar fræðsluseturs sem fylgdist með mótinu og hvatti íslensku keppendurna ásamt stórum hópi fagfólks sem styður við menntun og símenntun í iðn- verk og tæknigreinum.