Fréttir
13. janúar 2026

Íslenskur úrsmíðanemi sækir reynslu til Danmerkur

Íslenskur úrsmíðanemi sækir reynslu til Danmerkur

Áhugi á úrum leiddi Kristinn Hall Arnars­son út fyrir landsteinana. Hann stundar nú úrsmíðanám í Danmörku og segir reynsluna vera ævintýri sem hafi styrkt hann bæði faglega og persónulega.

Kristinn Hallur Arnars­son, 25 ára nemi í úrsmíði, stundar starfsnám við ZBC-skólann í Ringsted í Danmörku. Hann hóf námið árið 2024 og fylgir þannig í fótspor nokkurra íslenskra nemenda sem hafa lokið námi og sveinsprófi í úrsmíði við skólann á undanförnum árum. Samhliða náminu er Kristinn í vinnustaðanámi á Íslandi hjá Klukkunni, þar sem áhugi hans á faginu kviknaði upphaflega.

Heillandi heimur úrsmíða

Aðspurður hvað hafi orðið til þess að hann ákvað að fara í nám erlendis segir Kristinn að ákvörðunin hafi orðið til eftir að hann hóf störf hjá Klukkunni. Þar kynntist hann heimi úra og úrsmíði nánar og fann fljótt að þetta væri fag sem hann vildi leggja fyrir sig. „Ég byrjaði að vinna í Klukkunni og fann áhugan á úrum og síðan úrsmíði. Þar með ákvað ég hvað ég vildi gera og ákvað að fara út í það nám,“ segir hann.

Kristinn segir töluverðan mun vera á skólakerfinu í Danmörku og á Íslandi. Námið í Danmörku sé með öðrum áherslum, meðal annars með meiri munnlegum prófum en hann átti að venjast. Að hans mati hafi það bæði verið krefjandi og lærdómsríkt að aðlagast nýju námsumhverfi.

Reynslan af námi erlendis hefur þó verið afar jákvæð, þrátt fyrir að upphafið hafi verið erfitt. Kristinn segir mikilvægt að fólk sem hugleiðir nám erlendis geri sér grein fyrir því að aðlögunin taki tíma. „Þetta er erfitt til að byrja með en þetta verður léttara og maður verður reynslunni ríkari. Þetta er upplifun sem maður getur ekki misst af,“ segir hann.

Alltaf að horfa á björtu hliðina

Þegar hann er beðinn um að lýsa reynslunni í þremur orðum nefnir hann: „Ævintýri, spennandi og lærdómsríkt.“

Hann hvetur jafnframt þá sem eru að velta fyrir sér Erasmus-námi eða öðru námi erlendis til að halda jákvæðu hugarfari. „Alltaf að horfa á björtu hliðina, jafnvel þótt þetta sé erfitt til að byrja með,“ segir Kristinn að lokum.

Fleiri fréttir