Fréttir
26. ágúst 2025

Öflugur landsliðshópur á leið til Danmerkur

Öflugur landsliðshópur á leið til Danmerkur

Þrettán ungir og efnilegir keppendur taka þátt í Euroskills í Herning í Danmörku í byrjun september.

Allir í íslenska landsliðinu hafa sýnt framúrskarandi árangur í sinni faggrein en flestir þeirra báru sigur úr býtum á Íslandsmóti iðn- og verkgreina sem fór fram í Laugardalshöll í mars sl.

Íslendingar eiga fulltrúa í bifvélavirkjun, bakstri, hársnyrtiiðn, málun, pípulögnum, rafeindavirkjun, rafvirkjun, iðnaðarstýringum, trésmíði, matreiðslu, framreiðslu og grafískri miðlun.

Keppendur fyrir Íslands hönd á Euroskills verða:

  • Málmsuða: Sigfús Björgvin Hilmarsson
  • Pípulagnir: Ezekiel Jakob Hanssen
  • Rafeindavirkjun: Einar Örn Ásgeirsson
  • Rafvirkjun: Daniel Francisco Ferreira
  • Iðnaðarstýringar: Gunnar Guðmundsson
  • Trésmíði: Freyja Lubina Friðriksdóttir
  • Matreiðslumaður: Andrés Björgvinsson
  • Framreiðslumaður: Daníel Árni Sverrisson
  • Grafísk miðlun: Jakob Bjarni Ingason
  • Bakari: Guðrún Erla Guðjónsdóttir
  • Hársnyrtiiðn: Bryndís Sigurjónsdóttir
  • Málun: Hildur Magnúsdóttir
  • Bifvélavirkjun: Adam Stefánsson

Aldrei hafa fleiri keppendur tekið þátt fyrir hönd Íslands. Á síðasta Evrópumóti sem fór fram í Gdansk í Póllandi voru keppendur 11 talsins.

Sálfræðingur með í för

Liðsstjóri íslenska liðsins er Sigurður Borgar Ólafsson framreiðslumeistari. Hann segir góðan anda í hópnum þrátt fyrir krefjandi æfingaferli og keppni framundan. Hlutverk hans er að halda hópnum saman, vera þeim innan handar og vera vakandi fyrir þörfum hvers og eins. „Ég þarf að vita á hverju þau þurfa að halda áður en þau vita það sjálf. Stemningin í hópnum er mjög góð og allir keppendur eru spenntir fyrir verkefninu og undirbúningurinn er á pari við það sem þekkist í íþróttalandsliðum,“ segir hann og nefnir að í fyrsta sinn fylgi sálfræðingur íslenska landsliðinu til að styðja við keppendur andlega á meðan mótinu stendur. „Þetta hefðum við alltaf átt að gera en hann Dr. Erlendur Egilsson sálfræðingur fer með okkur og hefur gefið keppendum dýrmæt tól að vinna með sem nýtast þeim líka vel í framtíðinni.“ 

Fleiri fréttir