Fréttir
17. desember 2025

Ógleymanlegt starfsnám í Berlín

Ógleymanlegt starfsnám í Berlín
Davíð Stefánsson fyrir utan Lemke í Berlín þar sem átti góðan tíma í starfsnámi.

„Mér finnst ég vera mikið fróðari um bjór og bjórgerð eftir að hafa farið til Þýskalands,“ segir Davíð Stefánsson framreiðslunemi um skemmtilegt starfsnám í Berlín.

Davíð, 19 ára nemi á veitingastaðnum Monkeys í Reykjavík, fór í september síðastliðnum í fjögurra vikna starfsnám til Berlínar með Erasmus-styrk fyrir tilstilli Iðunnar fræðsluseturs.

Þar starfaði hann hjá Lemke, þekktri bruggsmiðju og veitingastað í borginni og fékk einstakt tækifæri til að dýpka þekkingu sína á þjónustu og bjórgerð í landi sem er þekkt fyrir sterka bjórmenningu.

Áhugi Davíðs á Þýskalandi og menningu landsins átti stóran þátt í ákvörðuninni. Hann segir tækifærin til að læra um bjórgerð þar vera mun fjölbreyttari en á Íslandi. „Ég hef alltaf sýnt bjórgerð mikinn áhuga en það er mjög takmarkað sem maður getur lært á Íslandi miðað við Þýskaland,“ segir hann.

Að hans mati var starfsnámið dýrmæt viðbót við námið og gaf honum traustan grunn sem hann nýtir nú daglega í starfi sínu.

Fólk spjallaði úti á götu

Dvölin í Berlín hafði einnig áhrif á hann persónulega. Davíð bjó einn í borginni og segir það hafa aukið sjálfstraust sitt og opnað hugann fyrir því að búa og starfa erlendis í framtíðinni. Hann upplifði jafnframt mikinn mun á samskiptum fólks og fann að fólk í Berlín væri opið, hjálpsamt og fljótt að hefja samræður við ókunnuga. „Ég lenti oft í því að spjalla við fólk úti á götu, sem gerist ekki mjög oft hérna á Íslandi,“ segir hann.

Þegar hann lítur til baka lýsir Davíð reynslunni sem skemmtilegri, lærdómsríkri og ógleymanlegri. Hann hvetur aðra nemendur eindregið til að nýta sér Erasmus-tækifæri ef þau bjóðast. Að hans sögn er slíkt starfsnám einstök reynsla sem eflir bæði faglega og persónulega og eitthvað sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Fleiri fréttir