Hlaðvörp - Augnablik í iðnaði
07. október 2025

Það sem virkaði áður virkar ekki í dag – verkstjórar þurfa þjálfun

Það sem virkaði áður virkar ekki í dag – verkstjórar þurfa þjálfun

Berglind Björk Hreinsdóttir og Harpa Þrastardóttir hjá Kjarki ráðgjöf kenna á nýju námskeiði í boði hjá Iðunni fræðslusetri: Verkstjóri í iðnaði – ábyrgð og verksvið. Þær hafa mikla reynslu af því að halda slík námskeið og ræddu um mikilvægi þess að styðja við verkstjóra í iðnaði í nýjasta þætti hlaðvarps Iðunnar, Augnablik í iðnaði.

Starf verkstjóra felur í sér mikla ábyrgð

„Það er mikið lagt á verkstjóra án þess að þeir hafi fengið fræðsluna og þjálfunina til að sinna starfinu mjög vel,“ segir Harpa. „Þeir eiga að vera í samskiptum við verkkaupa, undirmenn og vinna eftir kröfum yfirmanna og verkkaupa einnig.“
Hún bætir við að starfið sé ákaflega víðfemt og ábyrgðarmikið. „Við gerum kröfu um að fólk í þessum hlutverkum hafi sömu hæfni og það hafi tekið meistaragráðu í stjórnun – en þannig er það alls ekki. Verkstjórar í iðnaði búa yfir dýrmætri hæfni tengdri sinni iðngrein, en hafa oft ekki fengið þá þjálfun og reynslu sem þarf til að sinna starfinu á faglegan hátt.“

Að stjórna sjálfum sér er lykillinn

Berglind tekur undir með Hörpu og bendir á að verkstjórar, líkt og aðrir stjórnendur, beri ábyrgð á starfsfólki sínu og vellíðan þess.
„Það eru margir hattar á verkstjóranum,“ segir hún. „Það er mikilvægt að þeir hafi betri grunn en bara hyggjuvitið. Fólk er oft hent í þetta starf og vinnur eftir hyggjuviti, en við vitum að það er ekki nóg.“

Hún segir starfið krefjandi og oft álagsbundið. „Þá er gott að geta stjórnað sjálfum sér – það er lykillinn að öllu og forsenda þess að ná því besta fram úr því starfsfólki sem maður stýrir.“

Enginn verður góður stjórnandi af sjálfu sér

Harpa tekur undir það og segir að enginn verði góður stjórnandi af sjálfu sér, jafnvel þótt hann búi yfir góðum mannkostum.
„Þú þarft að vera tilbúin að læra meira og tileinka þér góð vinnubrögð. Það er svo margt sem hefur breyst í vinnuumhverfinu, og það sem virkaði áður virkar ekki endilega í dag,“ segir hún.
Að hennar mati hafa flest fyrirtæki í iðnaði metnað til að styðja vel við sína verkstjóra og skapa þeim tækifæri til að eflast í starfi. 

Námskeiðið hefst í byrjun nóvember og lýkur með útskriftarfögnuði í húsakynnum Iðunnar fræðsluseturs. Skráning fer fram hér.

Fleiri fréttir