Viðtal við Niklas Eriksson, sænskan ráðgjafa hjá Idhammar, sem hélt námskeið hjá Iðunni
Sænski ráðgjafinn Niklas Eriksson er einn þeirra sem hefur miðlað af reynslu og þekkingu til íslenskra iðnfyrirtækja í gegnum námskeið hjá Iðunni fræðslusetri. Hann starfar hjá sænska ráðgjafarfyrirtækinu Idhammar, sem sérhæfir sig í viðhaldsstjórnun, rekstrarþróun og frammistöðustjórnun.
„Idhammar gerir í raun þrjá hluti,“ útskýrir Niklas. „Við veitum ráðgjöf á sviði framleiðslu og viðhalds, við bjóðum upp á fjölbreytt námskeið og loks sinnum við tímabundinni stjórnendaaðstoð – til dæmis þegar fyrirtæki þurfa að fá inn viðhaldsstjóra eða verkefnastjóra til bráðabirgða.“
Hann hóf störf hjá Idhammar árið 2018 og segir fyrstu verkefnin hafa snúist um stefnumótandi viðhaldsþróun hjá stórum pappírsframleiðanda. „Ég byrjaði í tímabundinni stjórnendastöðu en síðan hef ég sinnt alls konar greiningum og verkefnum – í dag geri ég eiginlega allt,“ segir hann með bros á vör.
Frá kafbátum til kjarnorkuvera
Fyrir ráðgjafastarfið starfaði Niklas í sænska hernum sem marine engineering officer í kafbátum.
„Ég var mörg ár undir yfirborði sjávarins,“ segir hann. „En þegar yngsti sonur minn bað mig að koma heim ákvað ég að hætta sjómennskunni. Í stað þess að vera 150–200 daga á ári á sjó fór ég að vinna á kjarnorkuveri nálægt heimili mínu.“
Eftir fjögur ár þar sneri hann sér að ráðgjöf.
Fjórða námskeiðið á Íslandi
Þetta er fjórða námskeiðið sem Niklas heldur í Reykjavík. „Námskeiðið stendur yfir í sex daga – fyrstu tvo daga unnum við saman á staðnum, næstu tvo í gegnum Teams og loks endum við námskeiðið hér í Reykjavík,“ segir hann.
Hann hefur áður kennt í tengslum við Evrópska vottun fyrir viðhaldsstjóra, sem hann lýsir sem mjög krefjandi námi. Að þessu sinni er áherslan á viðhaldsstjórnun, með fókus á frammistöðu og rekstraröryggi.
„Við förum í grunninn – hvað þarf að vera til staðar í fyrirtæki svo það geti raunverulega séð um eignir sínar og tryggt að framleiðslan gangi vel.“
Frá viðgerðum til forvarna
Niklas segir að viðhaldsstarf hafi tekið miklum breytingum síðustu áratugi.
„Fyrir 30–40 árum var viðhald oftast viðbragð – þú lagaðir hlutina þegar þeir biluðu. En þegar framleiðsla varð flóknari sáu menn að það dugði ekki lengur. Þú verður að koma í veg fyrir bilanir áður en þær gerast.“
Þessi hugmyndafræðibreyting – forvarnarviðhald – var fyrsta stóra byltingin í viðhaldsstjórnun. En þróunin hefur verið misjöfn eftir löndum.
„Norðurlöndin hafa verið frekar sein að breytast – það eru sterkar verkmenningarhefðir sem sitja í veggjum fyrirtækja. En þetta er að breytast. Þar sem fólk áður sagðist vera viðgerðarmaður segir það nú að það sé viðhaldstæknir – sem merkir að það vinnur ekki bara við að laga heldur líka að koma í veg fyrir bilanir.“
Smærra vistkerfi á Íslandi
Þegar hann er spurður hvort íslensk fyrirtæki séu á eftir í þessum efnum hristir Niklas höfuðið.
„Það er einfaldlega vegna þess að vistkerfið hér er smærra. Í Svíþjóð eru þúsundir fyrirtækja sem geta lært hvert af öðru, rætt saman og keppt sín á milli. Hér á Íslandi eru kannski eitt eða tvö fyrirtæki í hverjum geira – það eru færri tækifæri til að miðla reynslu og þekkingu.“
Þar kemur mikilvægi námskeiða hjá Iðunni sterkt inn:
„Við komum með aðferðir, tækni og hugsun sem hefur sannað sig annars staðar. Þetta hjálpar íslenskum fyrirtækjum að þróast hraðar.“