Matþörungar eru ofurfæða

„Í fjörum Íslands er að finna gríðarlega fjölbreytta, nánast ónýtta flóru íslenskra matþörunga sem nokkrir af færustu matreiðslumönnum landsins hafa verið að enduruppgötva og hefja aftur til virðingar á síðustu árum,“

Matþörungar
Matþörungar

    Þörungar eru í grunninn mjög einföld fæða sem krefjast ekki mikillar fyrirhafnar en launa þeim sem neyta þeirra ríkulega. Næringafræðilega séð er óhætt að segja að matþörungar séu ofurfæða. Engin planta á landi inniheldur jafn fjölbreytt og mikið magn næringarefna, steinefna, vítamína og annara lífvirkra efna og lágt kolvetnainnihald eins og þörungar. Matþörungar eru jafnframt ein sjálfbærasta uppspretta næringar sem við höfum aðgang að, en þeir krefjast ekki jarðvegs, ferskvatns, eða áburðar til að vaxa auk þess sem þeir binda mikið magn koltvísýrings í vaxtarferli sínu.

    Þekking frá keltneskum formæðrum

    Sögulega séð hafa íslendingar nýtt sér þörunga s.s. söl, fjörugrös og marinkjarna til matar frá landnámi og er sú þekking upprunnin frá keltneskum formæðrum okkar, en þörungar voru einungis nýttir til matar í Evrópu fyrr á öldum þar sem keltneskra menningaráhrifa gætti s.s. Skotlandi, Írlandi, Wales, Brittaníuskaga og Íslandi. Í japanskri matargerð er hrossaþari þekktur sem kombu, marinkjarni sem wakame, purpurahimna sem nori og maríusvunta sem anori. Auk þessara má til dæmis finna þangskegg eða sjávartrufflu sem gefur einstaklega ríkt trufflubragð, á vorin er hægt að tína litla belgi sem vaxa á klóþangi sem við pikklun bragðast furðu líkt kapers, en með flóknari umami-keim. Í rauninni má borða allar fjöruþörungategundir sem vaxa við Íslands, enginn þeirra er eitruð, þó ekki séu þær allar jafn bragðgóðar eða skemmtilegar undir tönn.

    Nýtt fræðirit og matreiðslubók um þörunga

    Á dögunum kom út bókin Íslenskir matþörungar sem er yfirgripsmikið fræðirit um þörunga og hágæða matreiðslubók með uppskriftum á heimsmælikvarða. Bókinni er ætlað að vera lesandanum vegvísir að sjálfbærri nýtingu þörunga og er í henni að finna ítarlegan fróðleik um matþörunga, hvar þeir vaxa, hvernig lesa má flóðatöflur með tilliti til þess hvar tegundirnar vaxa auk einstakra útbreiðslukorta fyrir átta íslenskar tegundir og hvernig best er að tína þá og verka til matar. Bók sem enginn mataráhugamaður má láta fram hjá sér fara.“

    Höfundur Eydís Mary Jónsdóttir umverfis- og auðlindafræðingur Myndatextar: Eydís Mary Jónsdóttir

    Í nýrri bók; Íslenskir matþörungar er að finna fróðleik og uppskriftir.

    Hafa samband

    Hafðu samband

    Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband