Systkinin í járninu

Í Járnsmiðju Óðins starfa systkinin Daníel og Kata Óðinsbörn sem hafa ólíka eiginleika sem spila vel saman.

Daníel og Kata
Daníel og Kata

  Járnsmíði er afar víðfemt fag þar sem starfar fjöldi iðnaðarmanna með ólíkan bakgrunn; járnsmiðir, stálsmiðir og blikksmiðir, vélvirkjar, vélsmiðir og rennismiðir. Það kemur mörgum á óvart við fagið reynir á marga mismunandi eiginleika, skapandi hugsun jafnt og greinandi hugsun, fínvinnu og nákvæmni. Við litum við í Járnsmiðju Óðins í þeim tilgangi að varpa ljósi á fjölbreytileikann sem einkennir fagið en þar starfa systkinin Daníel og Kata Óðinsbörn sem hafa ólíka eiginleika sem spila vel saman.

  Fjölbreytt vinna, endalausir möguleikar

  „Möguleikarnir eru endalausir, þetta er lifandi efniviður í mörgum litum og afbrigðum, það sem það sem er svo heillandi við að vinna í málmi,“ segir Kata sem er arkitekt, hönnuður og járnsmiður. Kata lauk grunnámi í arkitektúr við Listaháskóla Íslands og fór þaðan í meistaranám í arkitektúr til Bergen í Noregi. „Ég hef unnið hér síðan ég var unglingur og þegar ég lauk meistaranáminu árið 2016 mætti ég hingað. Mig langaði ekki til að setjast á bak við tölvu og teikna hús. Almenn hönnun heillaði mig frekar. Ef ég hefði valið seinna um nám þá hefði ég lært vöruhönnun Mig langaði hingað og finnst vinnan fjölbreytt, ekkert verkefni er eins.“

  Ólíkir eiginleikar, góð samvinna

  Daníel hefur einnig starfað í járnsmiðjunni frá unglingsárum. „Ég byrjaði hér aðeins þrettán ára gamall, og nú hef ég unnið hér í þrjátíu ár. Ég er búinn að vera hérna alla mína tíð, ég hef unnið í þessu fyrirtæki í 30 ár, eða frá því ég var þrettán ára gamall,“ segir hann frá og segir reynsluna spila vel saman við hæfileika Kötu til að teikna og ræða við viðskiptavini um lausnir og hugmyndir. „Þetta er mikilvægt, því fólk er oft að framkvæma dýra hluti og eiga á sama tíma erfitt með að skilja teikningar. Kata á mjög auðvelt með að lýsa teikningum og líka að útfæra þær með viðskiptavinum. Við sitjum hlið við hlið. Þegar hún er að teikna spyr hún mig, þarf ég að hafa meiri styrkingu hér? Og þegar ég er að teikna, þá spyr ég, er flottara að hafa þetta svona eða svona? Þetta er góð samvinna,“ segir Daníel.

  Engin kreppa ennþá

  Þau systkini segja verkefnastöðuna góða og engin fyrirsjáanleg kreppa í kortunum eins og víða annars staðar í samfélaginu. „Ég er búinn að reyna margt í þessu á mínum ferli, og það hefur aldrei orðið djúp kreppa í málminum. Kannski helst í fyrirtækjum sem eru háð stóriðnaði eða stórfyrirtækjum, til dæmis í sjávarútvegi,“ segir Daníel og Kata tekur undir. „Ég finn að ástandið er erfitt hjá mörgum og höggið kemur fyrst á hönnuði og arkitekta, við fáum höggið svo miklu seinna.“ Daníel segir átak ríkisstjórnarinnar, Allir vinna, hafa haft mikil og góð áhrif á iðnaðinn. „Það er mikið að gera og margir í framkvæmdum heima hjá sér, á á móti hafa hótel, verslanir og veitingastaðir dregið úr framkvæmdum í bili.“

  Málmurinn vinsæll

  Málmurinn er mjög vinsæll efniviður í innanhússhönnun um þessar mundir. Þau segja glerhandrið á útleið og vinsælt að nota stál í handrið og veggi. Svart og olíuborið. „Rennihurðir og veggir með málmi, og að búa til herbergi með skilrúmum er mjög vinsælt. Glerhandrið voru vinsæl en eru að fara út. Fólk vill fara í svolítið grófa og skemmtilega hönnun, ryðútlit er vinsælt. Stálið er vinsæll efniviður núna. Kosturinn er að það er hægt að nota þynnra efni í verkið en burðargetan er mikil,“ segir Kata. Daníel tekur undir. „Fólk kemur oft með hugmyndir, eitthvað sem það hefur séð á Pinterest. Og þá hefur Kata tekið við þessum hugmyndum og aðstoðað við að útfæra þær.“

  Ný tækni nauðsynleg

  Þau nota stálið mikið, álið minna enda sé það þrisvar til fimm sinnum dýrara en stál. Þá hafa slysast inn verk þar sem þau hafa fengið að reyna við sjaldséðari efnivið á borð við koparblandað tin og títaníum. „Það er gaman að fást við ólíkan efnivið. Pewter, eða koparblandað tin er fjórði dýrasti málmur heims. Hann er mikið notaður í barborð í Bretlandi. Hann er svo mjúkur að þú getur nánast undið hann eins og tusku.Við gáfum listamanni afganga úr málminum sem hann hafði gaman af að vinna með,“ segir Daníel.

  Tækniþróun er mikil og hröð í málmiðnaði eins og í öðrum iðngreinum. Systkinin eru sammála um nayðsyn þess að uppfæra vinnutæki og búnað reglulega. „Við gerum það hægt og rólega og nú erum við að fá tölvustýrða rennibekki. En við erum ekki komin með sjálfvirka þjarka, þó við höfum verið að skoða þá. Þetta er nauðsyn. Ef að þú fylgir ekki tækniþróun og segir bara nei ég ætla að nota áfram minn handstýrða búnað þá verður þú fljótt úreltur.“

  Höfundar: Gústaf Adólf Hjaltason fagstjóri málmsuðu hjá IÐUNNI fræðslusetri og Kristjana Björg Guðbrandsdóttir sviðsstjóri prent- og miðlunarsviðs.

  Hafa samband

  Hafðu samband

  Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband