Það er svo mikill fókus á bóknám

Sandra D. Gunnarsdóttir, náms- og starfsráðgjafi, mætti til okkar í kaffispjall og ræddi við Eddu, fagstjóra námsráðgjafar hjá IÐUNNI, um meistaraverkefnið sitt.

  Sandra segir að það hafi komið sér á óvart hversu grunnskólinn er bóknámsmiðaður. Það eitt skapi alls konar hindranir. Bóknámið gengur alltaf fyrir og grunnskólanum er sniðinn þröngur stakkur út frá aðalnámskrá hvað bóklegar greinar varðar. Náms- og starfsfræðsla er ekki skilgreind í aðalnámskrá sem sér fag með hæfniviðmiðum líkt og gert er t.d. í Noregi, en þar er hún skyldufag í 8.-10. bekk.

  Í meistaraverkefninu tók Sandra viðtöl við sjö náms- og starfsráðgjafa. Fimm þeirra sögðust ná að sinna einhverri náms- og starfsfræðslu í 10. bekk, en tveir þurftu að leita færis í samvinnu við kennara til að fá að koma inn í tíma.Yfir hundrað starfsnámsbrautir eru í boði og því áskorun að koma sér inn í það umhverfi. Bóknámsbrautir eru hins vegar tuttugu. Hún telur að þau viðmið sem eru í gildi varðandi fjölda náms- og starfsráðgjafa á hvern nemanda í grunnskólum á Íslandi séu löngu úreld. Náms- og starfsráðgjafar sinna einnig daglegri þjónustu við nemendur allt skólaárið sem getur verið mjög krefjandi.

  Sandra segist finna fyrir því að kynningar á iðn- og verknámi skili sér þó svo að Ísland sé langt undir þeim viðmiðum sem eru í Evrópu hvað fjölda í þessum greinum varðar. Á Íslandi fara um10% nemenda í starfsnám en talan sé um 20% nágrannalöndum okkar.

  Hún telur jafnframt að flökkusagan um að iðn- og starfsnám loki ákveðnum möguleikum á háskólanámi, sé enn við líði og henni þurfi að útrýma. Kynna þarf betur möguleikann á að taka stúdentspróf samhliða iðn- og verknámi og hina ýmsu möguleika á framhaldsmenntun. Þetta þarf að kynna vel fyrir foreldrum líka því þau hafa áhrif á námsval nemenda. Þá myndi hún vilja sjá aukið samstarf við atvinnulífið, en tekur jafnframt fram að til séu dæmi um mjög öflugt samstarf alveg niður í 2. bekk.

  Sandra telur að stjórnvöld verði að formgera náms- og starfsfræðslu inn í aðalnámskrá og svo kallar hún eftir að vinna við heildstæða stefnu í náms- og starfsráðgjöf, sem hefur verið lengi í vinnslu, fari að ljúka. Svo brosir þessi skemmtilega kona og segir að stefnan hljóti að verða alveg skotheld þegar hún kemur út eftir allan þennan tíma.

  Við þökkum Söndru fyrir áhugavert, fræðandi og skemmtilegt spjall. Það er sannarlega gott að vita að þarna úti er fólk sem sér að breytinga er þörf og er tilbúið að vinna að þeim á uppbyggilegan hátt.

  Hafa samband

  Hafðu samband

  Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband