IÐAN í alþjóðlegu samstarfi

Ný alþjóðleg vottunarnámskeið tengd viðhaldi og umgengni rafbíla eiga sér langan aðdraganda. Sigurður Svavar Indriðason, sviðstjóri bílgreinasviðs IÐUNNAR fræðslusetur segir frá samstarfsaðilunum; fyrirtækinu Lucas-Nüelle og IMI, The Institute of the Motor Industry.

  Haustið 2018 varð á vegi höfundar stórsniðugt kennslutæki fyrir rafbíla frá þýska fyrirtækinu Lucas-Nüelle, eða svokallaðaur rafbílahermir. Það er nefnilega svo að helsti galli þeirra rafbílanámskeiða sem hafa verið haldin er sá, að lítil sem engin verkleg þjálfun er til staðar. Með þessum rafbílahermi er hins vegar einfalt að framkvæma hinar ýmsu mælingar og jafnvel setja inn bilanir á auðveldan og öruggan hátt fyrir nemendur að greina.

  Hermirinn var keyptur til IÐUNNAR árið 2019 og vær upphaflega ætlunin sú, að nýta hann og það námsefni sem honum fylgdi til að setja saman okkar eigin námskeið. Eftir heimsókn til LN kom hins vegar í ljós að samstarf var með þeim og IMI í Bretlandi um vottuð rafbílanámskeið og í kjölfarið var ákveðið að sækjast eftir að verða vottaður IMI fræðsluaðili þar sem það gæfi námskeiðunum mun meira gildi.

  Vottunarferlið hófst í byrjun 2020 á úttekt á gæðakerfi, aðstöðu og getu IÐUNNAR til að vera vottaður IMI fræðsluaðili. Áætlað var að ljúka vottuninni þá um sumarið en COVID setti strik í reikninginn og því dróst ferlið fram á haustið. Venjulega felur lokaskref vottunarinnar í sér heimsókn aðila frá IMI í Bretlandi til að framkvæma lokaúttekt ásamt því að votta kennarana en þar sem það var ekki hægt vegna ferðatakmarkana þurfti að hugsa í lausnum. Úr varð að lokaskrefið var tekið alfarið rafrænt, eitthvað sem hafði aldrei verið gert áður og heppnaðist það glimrandi vel að sögn fulltrúa IMI. IÐAN fræðslusetur er því núna vottuð til að bjóða upp á rafbílanámskeiði IMI á 3 þrepum.

  Hvað er Lucas Nüelle?

  Lucas Nüelle sérhæfir sig í ýmis konar kennslubúnaði fyrir tækni og iðngreinar. Fyrirtækið var stofnað árið 1973 af Rolf Lucas-Nüelle og eru höfuðstöðvar þess í smábænum Kerpen í Þýskalandi. LN leggur mikla áherslu á gæði búnaðar og framleiðslu og eru því nánast allar vörur þeirra og íhlutir framleiddar í þeirra eigin verksmiðju í Kerpen. Þar er öll framleiðsla byggð á sérpöntunum (made by order) sem gerir eykur mjög sveigjanleika og getu til að uppfylla séróskir viðskiptavina. Hver einasta vara er vandlega prófuð áður hún er send til viðskiptavinar. Að lokinni heimsókn í höfuðstöðvarnar í Kerpen þar sem höfundur m.a. hitti þá sem vinna að hönnun og framleiðslu var ljóst að LN væri með þeim fremstu á sínu sviði og því til stuðnings má nefna að kennslutæki LN voru notuð á WorldSkills 2018. Þar á meðal fyrrnefndur rafbílahermi. Rafbílahermirinn og námsefnið með honum er hannað til uppfylla alþjóðlegar kröfum/vottanir þegar kemur að raf- og hybrid námskeiðum, t.d. IMI EV L3 vottun frá Bretlandi, ASE L3 frá Bandaríkjunum og DGUV 200-006 frá Þýskalandi.

  Hvað er IMI?

  The Institute of the Motor Industry (IMI) var stofnað í Bretlandi árið 1920 og fagnar því 100 ára afmæli á þessu ári. Á þeim tíma líkt og nú var samfélagið að upplifa miklar breytingar vegna tækniframfara og IMI ekki síst stofnað til auka þekkingu og hæfni innan bílaiðnaðarins í Bretlandi sem var í gífurlegum vexti. Markmið þess í dag er að bjóða upp á mismunandi leiðir þannig að fólk innan bílaiðnaðarins hafi kost á að afla sér faglegrar þekkingar og viðurkenningu á sinni hæfni og geti haldið í við þær breytilegu kröfur sem greinin gerir til starfsmanna vegna mikillar og hraðrar tækniþróunar. Að verða viðurkenndur fræðsluaðili af IMI er ekki lítið ferli. Eins og má búast má við af svo stórri og gamalli stofnun þarf allt að fara eftir stöðluðum ferlum þar sem mismunandi skilyrði þurfa að vera uppfyllt og eru gæðamál þeim mjög ofarlega í huga. Mikil áhersla er lögð á að tryggja heilindi vottana og að viðurkenndir fræðsluaðilar fari eftir réttum ferlum og er því fylgt eftir með reglubundnum innri og ytri gæðaúttektum.

  IÐAN hóf þetta ferli í byrjun ársins 2020 eins og áður segir og lauk því formlega í nóvember 2020. Þessi mikilvæga vottun er enn ein viðurkenningin á fagmennsku og hæfni IÐUNNAR þegar kemur að fræðslumálum og gefur rafbílanámskeiðum okkar mikið gildi. Samstarf við svo stóra og virta stofnun eflir einnig erlent tengslanet IÐUNNAR og opnar mögulega á annars konar samvinnu, enda hefur IMI ýmislegt annað fram að færa.

  Hafa samband

  Hafðu samband

  Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband