Orsök þess að sveifarás brotnaði í Lagarfossi óþekkt

Starfsmenn Stálsmiðjunnar Framtaks unnu þrekvirki við viðgerðina. Kristjana Guðbrandsdóttir og Kristján Kristjánsson ræddu við Árna Pálsson um verkefnið.

  Það var á milli jóla og nýárs á síðasta ári sem Lagarfoss, skip í eigu Eimskipafélagsins drap á sér á siglingu sinni á milli Íslands og Ameríku. Eimvaki (e.mist detector) stöðvaði vélina og við skoðun sást sprunga í einum sveifarveli.

  Skipið var dregið til hafnar og í framhaldinu var athugað hvort hægt væri að framkvæma viðgerð hér á landi. „Í raun og veru það eina í stöðunni því það er ekki mikið vit í því að draga skiptið yfir allt Atlantshafið í janúar. Við hjá Stálsmiðjunni Framtaki fórum í að athuga með nýjan sveifarás í samráði við Eimskip,“ segir Árni og það kom blessunarlega í ljós að slíkur ás var til í verksmiðju MaK í Þýskalandi og reynar aðeins einn til á lager. Hann segir verksmiðjuna hafa brugðist vel við beiðni um að koma ásnum til Íslands.

   

  Vélin í Lagarfossi er af gerðinni MaK 9M43C. 9 cylindra, 12 þúsund hestöfl, hún er gríðarlega þung, um 130 tonn. „Við vissum að það þyrfti mikið skipulag við að ná vélinni undan sveifarásnum og við hófumst handa strax eftir áramót eða þann 5.janúar. Þá byrjuðum við á því að taka ofan af vélinni og innan úr henni. Vélin var staðsett undir gámadekkinu og við þurftum að lyfta 80 tonna blokkinni upp um 2,.5 metra til að ná sveifarásnum undan blokkinni.“ Til að lyfta slíkum þunga þurfti að leigja fjórar 25 tonna talíur að utan. Þá var smíðaður sérstakur vagn til að renna ásnum fram undan vélinni og fram í lestina.

  Hvað gerðist?

  Árni segir að líklega hafi 30 manns unnið að framkvæmdum á einn eða annan hátt og þann 24. janúar var nýi ásinn hífður um borð og rennt undir vélina til samsetningar. „Vinnan var ekki eingöngu við samsetninguna því að sjálfsögðu var tækifærið nýtt og vélarhlutir yfirfarnir.

  Sturlaugur og co tóku að sér yfirferð á túrbínunni. Þetta gekk afar vel og þann 6.febrúar var hægt að setja vélina niður og hún var svo gangsett fjórum dögum síðar,“ segir Árni en Lagarfoss gat eftir þetta lagt úr höfn eftir yfirferð og viðgerð þann 12.febrúar.

  En hvað gerðist?„Það veit enginn og það er ekki vitað til þess að sveifarás í svona vél hafi brotnað. Hann er kominn út til Þýskalands til rannsóknar. En það sást þessi sprunga á sveifarvelinum, það má leiða líkum að því að þetta hafi verið galli en það verður bara að koma í ljós, “ segir Árni.

  Hér sést sprungan greinilega. Til að sjá hvernig hún liggur var notuð svokölluð vökvadreypni. Þ.e. rauður vökvi var settur yfir sprunguna og látin síga inní hana. Hann síðan þurkaður af og hvítur framkallari settur yfir svæðið. Hann dróg í sig rauða vökvan og þá kom sprungan betur í ljós og hvar hun lyggur eins og sjá má á myndinni.

  Útsjónarsemi og jákvæðni

  Árni segir verkefnið það allra stærsta sem Stálsmiðjan Framtak hafi fengist við þó hafi þeir fengist við viðamiklar viðgerðir í Reykjafossi og Skógarfossi. „Það er mikilsvert að Eimskip hafi haldið viðgerðinni hér innanlands og að okkur hafi verið treyst fyrir verkefninu. Það þarf margs konar ólíka hugsun og eiginleika til að koma að svona stóru verkefni og við erum með góðan mannskap sem nálgaðist það af útsjónarsemi og jákvæðni.“

  Hafa samband

  Hafðu samband

  Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband