Slush í Finnlandi 2021: Hugvitið blómstrar og tækifærin með

Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði hjá Samtökum iðnaðarins, skrifar um SLUSH í Finnlandi í desember, einn stærsta tengslaviðburð fjárfesta og nýsköpunarfyrirtækja í heiminum.

Áskoranirnar sem heimurinn stendur frammi fyrir í dag, loftslagsbreytingar og öldrun þjóða til að mynda, verða ekki leystar öðruvísi en með nýrri nálgun og breyttum hugsunarhætti. Nýsköpun er lykillinn að því að skapa farsæla framtíð fyrir okkur öll. Þetta voru grunnskilaboð nýsköpunar- og sprotaráðstefnunnar SLUSH sem haldin var í Finnlandi í desember.

SLUSH er einn stærsti tengslaviðburður fjárfesta og nýsköpunarfyrirtækja í heiminum en árlega sækja í kringum 20 þúsund einstaklingar ráðstefnuna. Í ár var ráðstefnan smærri í sniðum en áður vegna heimsfaraldurs en þrátt fyrir það voru gestir í kringum 8,800 talsins, þar af í kringum 1,700 fjárfestar sem hafa til ráðstöfunar eina trilljón evra. Því er ráðstefnan kölluð „the largest gathering of venture capital in the world“ eða stærsta samkoma vísisjóðsfjármagns í heiminum. Um 80 Íslendingar tóku þátt í ráðstefnunni í ár frá 40 ólíkum fyrirtækjum.

Á ráðstefnunni var fyrst og fremst fjallað um tæknifyrirtæki og áhersla lögð á að sýna fram á tækifærin í líftækniiðnaði, hugbúnaðarþróun, leikjaiðnaði og upplýsingatækni. Mikill vöxtur hefur verið í hugverkaiðnaði á síðastliðnum árum og útbreiðsla heimsfaraldurs kórónuveirunnar ýtti undir þessa þróun enda hefur nýting tækni sjaldan verið eins mikil og á undanförnum mánuðum. Þrátt fyrir að síðustu misseri hafi kennt okkur að eiga samskipti rafrænt, þvert á landamæri, hefur þörf mannsins til að hittast við og við, skiptast á skoðunum í eigin persónu og anda að sér sama andrúmsloftinu ekki horfið. Það var einstakt eftir tæpt tveggja ára tímabil af fjarlægðartakmörkunum og samkomutakmörkunum að taka þátt í viðburði þar sem rík áhersla var lögð á að eiga samskipti við raunverulega manneskju af holdi og blóði en ekki á tölvuskjá.

Síðustu ár sýna að tækniþróun verður ávallt að haldast í hendur við það sem gerir okkur mannleg. Toni Fadell, stofnandi Nest og sá sem á heiðurinn af því að finna upp iPodinn, sagði til að mynda í erindi um hönnun á „iconic-vörum“ að grundvöllurinn fyrir vinsælli vöru væri að hún leysti í raun vandamál sem fólk stæði frammi fyrir. Hans ráðlegging til þeirra sem starfa í nýsköpun og tækni var að taka mið af þörfum mannsins í stað þess að þróa sem tæknilegasta vöru til þess að „ganga í augun á tækninördum og verkfræðingum“.

Sjálfbærni og grænn iðnaður var fyrirferðamikill á ráðstefnunni. Kapphlaupið í átt að kolefnishlutleysi hefur hrundið af stað stofnun fjölmargra fyrirtækja sem einblína á sjálfbæra nýtingu auðlinda. Þessi fyrirtæki eru eins ólík og þau eru mörg, sum eru að þróa nýjar leiðir til þess að framleiða orku, önnur hafa hannað lausnir fyrir rótgróin fyrirtæki til þess að endurskoða sína ferla og enn önnur stefna á að kúvenda matvælaframleiðslu í heiminum. Ótrúlegar lausnir hafa orðið til á síðustu árum í gegnum rannsóknar- og þróunarverkefni um allan heim. Kastljósinu var beint að fyrirtækjum á borð við Solugen sem er komið langt með að þróa efnablöndur úr sykri til þess að knýja orkufrekan iðnað í stað þess að nýta til þess olíu og aðra ósjálfbæra orkugjafa. Solugen safnaði yfir 350 milljónum Bandaríkjadollara á síðasta ári til þess að þróa tækni sína og koma henni á markað. Lubomila Jordanova vakti einnig verðskuldaða athygli en hún stofnaði fyrirtækið Plan A árið 2017. Plan A hefur þróað hugbúnað sem mælir kolefnisfótspor fyrirtækja með áreiðanlegum og skilvirkum hætti. Árið 2021 var fjárfest í fyrirtæki hennar fyrir þrjár milljónir Bandaríkjadala.

Af ráðstefnunni að dæma má greina að gríðarleg tækifæri eru til staðar ef hugvit einstaklinga fær að blómstra. Flæði fjármagns í sjálfbær, framsækin, mögulega áhættusöm verkefni hefur aukist á undanförnum árum. Við hér á landi verðum að halda áfram að grípa þessi tækifæri og efla nýsköpun í öllum iðnaði. Það er nefnilega mikilvægt að hafa í huga að þrátt fyrir að kastljós ráðstefnunnar hafi beinst að möguleikum í hátæknigeirum þá á nýsköpun sér stað í öllum iðnaði. Víða má finna einstaklinga sem hafa ákveðið að nálgast störf sín frá nýjum sjónarhóli, taka skilvirkari ákvarðanir, móta sjálfbærari stefnu og stunda rannsóknir og þróun til þess að leysa vandamál nútíðar og framtíðar. Sem betur fer, því ekki veitir af. 

 

Hafa samband

Hafðu samband

Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband