Viðnámsþróttur mannvirkja og aðlögun að loftslagsbreytingum
Grænni byggð og norræn systursamtök ræddu mikilvægar lausnir í hönnun og mannvirkjagerð. Fimm sérfræðingar frá Íslandi, Noregi, Finnlandi og Danmörku ræddu um lausnir og aðlögun að loftlagsbreytingum
Viðburðurinn, Resilience and Climate Adaptation; Viðnámsþróttur mannvirkja og aðlögun að loftslagsbreytingum var haldinn af Grænni byggð í samstarfi við norræn systursamtök þann 19. janúar síðastliðinn. Hægt er að horfa á ráðstefnuna hér að neðan en flutt voru fimm erindi, meðal annars um viðnámsþrótt mannvirkja og nauðsyn þess að aðlagast væntanlegum loftslagsbreytingum.
Eins og fram kemur í áfangaskýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu Þjóðanna um loftslagsbreytingar sem gefin var út haustið 2021, getur mannkynið ekki lengur komið í veg fyrir loftslagsbreytingar af völdum gróðurhúsalofttegunda og þarf því að undirbúa sig fyrir aðlögun að þessum breytingum. Um efni skýrslunnar er fjallað í fyrsta fyrirlestri ráðstefnunnar sem fluttur er af dr. Guðfinnu Aðalgeirsdóttur jöklafræðingi, sem er einnig einn af aðalhöfundum skýrslunnar.
Í kjölfarið fjallaði Miisa Tähkänen, sem er leiðandi sérfræðingur Green Building Counsil í Finlandi í lífsferilsgreiningum, hringrásarhagkerfi og sjálfbærri viðskiptaþróun, um áhrif loftslagsbreytinga á mismunandi landssvæði í Finnlandi og hvaða áskoranir íbúar standa frammi fyrir við aðlögun að þeim. Erindi Miisa var fylgt eftir með erindi Norðmannsins Kim Haukeland Paus sem er aðstoðarprófessor við Norges Miljø- og Biovitenskapelige Universitet um það hvernig bregðast þarf við aukinni ákefð í úrkomu sem fylgja mun loftslagsbreytingum með endurhönnun á fráveitukerfum.
Í fjórða erindinu fjallaði Alexandra Vindfeld Hansen landslagsarkitekt frá Danmörku um aðferðir sem byggja á náttúrulausnum (Nature-based Design) og sýnir okkur dæmi um hönnun sem byggir á slíkum lausnum. Loks fjallaði Sigurður Freyr Jónatansson sérfræðingur um fjármálastöðugleika hjá Seðlabanka Íslands um sviðsmyndagreiningar vegna loftslagsáhættu og þær áskoranir sem fjármálaheimurinn stendur frammi fyrir vegna vaxandi áhættu á verðrýrnun eigna en fyrirsjáanlegt er að eftir því sem mótvægisaðgerðum gegn loftslagsvánni er frestað lengur, mun tjón á verðmætum í framtíðinni vaxa stöðugt.
Vefráðstefnunni stjórnaði dr. Sigríður Ósk Bjarnadóttir, lektor á verkfræði- og náttúruvísindasviði HÍ og meðlimur í stjórn Grænni byggðar. Öll erindin eru á ensku.