Efnileg ungmenni kepptu í iðn- og verkgreinum í Danmörku

Danska meistaramótið í iðn- og verkgreinum fór fram í Høng í Danmörku dagana 28.-30.apríl sl. Á mótinu kepptu 300 ungmenni í fjölmörgum greinum.

  Danska meistaramótið í iðn- og verkgreinum fór fram í Høng í Danmörku dagana 28.-30.apríl sl. Mótið er haldið af systursamtökum Verkiðnar, Skills Denmark, og nýtur ríkulegs stuðnings stjórnvalda og atvinnulífs. Um 300 ungmenni kepptu í fjölmörgum iðn- og verkgreinum í von um það að öðlast þátttökurétt á Euroskills sem verður haldið í Póllandi á næsta ári. Með því að öðlast keppnisrétt á Euroskills fá ungmennin tækifæri til þess að efla og prófa færni sína í alþjóðlegu samhengi og stækka tengslanet sín.

  55 sigurvegarar voru valdir í 49 greinum á danska landsmótinu. Í nokkrum greinum mörkuðu úrslitin tímamót, Kenny Bech Bruum sigraði þriðja árið í röð í flísalögnum og hin nítján ára Gry Astrup sigraði annað árið í röð í múrlögn. Á síðasta ári varð hún fyrst kvenna til að vinna titilinn. Gry hefur sagt að landsmótið hafi reynst beinn áhrifavaldur í því að hún valdi að verða múrari að atvinnu.

  Tilgangur landskeppna í iðn- og verkgreinum er að efla fagmennsku greinanna á landsvísu og kynna nám í greinunum fyrir grunnskólanemendum. Nemendur og aðrir gestir fá tækifæri til að ræða við ungt fólk í iðnnámi og spreyta sig á ýmsum skemmtilegum verkefnum tengdum greinunum. Í ár fengu danskir gestir meðal annars að smíða sér lítil hjólabretti, sauma í áklæði á hægindastól, prófa að gera blóma- og kökuskreytingar og fleira skemmtilegt.

  Sjálfbærni í brennidepli á næstu mótum

  Skills samtökin á Norðurlöndum eru í ríku og öflugu samstarfi við íslenska félagið, Verkiðn. Samstarfið skilar þekkingu um það sem er efst á baugi í fagmennsku í iðn- og verknámi í heiminum. Það þarf ekki að fara fleiri orðum um mikilvægi slíks samstarfs fyrir litla eyjaþjóð. Danir munu koma til með að halda þar næsta Euroskills mót árið 2025 og vilja innleiða sjálfbærnihugsun í öll verkefni allra greina á mótinu. Verkiðn á Íslandi mun fylgjast grannt með þróun mála og skoða ýmsar leiðir til þess að innleiða þessa sömu hugsun í framkvæmd Íslandsmótsins á næsta ári 16.- 18.mars í Laugardalshöll 2023.

  Hafa samband

  Hafðu samband

  Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband