Nám í bíliðngreinum, staða og framtíðarhorfur

Hreinn Á. Óskarsson og Ólafur G. Pétursson fagstjórar í bíliðngreinum í Borgarholtsskóla hafa sterkar skoðanir á iðnnámi, starfsþjálfun og samvinnu atvinnulífs og skóla.

  Báðir lentu þeir í kennslu fyrir hreina tilviljun en eru sammála um, að það að vera innan um ungt fólk heldur þeim ungum. „Ungt fólk hugsar á ferskum nótum“ segir Hreinn og Ólafur tekur undir það. „Maður er löngu hættur að vera bifreiðasmiður og kominn í eitthvað allt annað hlutverk, stundum jafnvel hálfgert föðurhlutverk, en þetta er gaman“ segir hann.

  Þeir telja að námið hafi orðið hnitmiðaðra í þeirri breyttu mynd sem þeir urðu að taka upp í covid. „Við vorum með færri einstaklinga yfir daginn, gátum fókusað á stærri verkefni og við lærðum nýja taktík í náminu. Þ.e.a.s. að skipta nemendum upp, hafa færri í einu í lengri tíma og við komumst oft á tíðum yfir meira efni.“ segir Ólafur.

  Þeir eru sammála um að það sé þreyta í nemendum eftir síðustu tvö ár og Hreinn bendir á að þetta sé einhverskonar félagsleg þreyta, sem hefur komið þannig út hjá sumum nemendum að þá skortir einbeitingu til að stunda námið, á meðan aðrir fundu sig betur í þessari uppbyggingu. Félagslíf geti því verið stór þáttur í því að nemendum líði vel í skólanum.

  Hvað framtíðina varðar þarf námið, að þeirra mati að standast kröfur nútímans og vera góður grunnur fyrir áframhaldandi menntun. Til þess að það verði að veruleika vilja þeir eiga heiðarlegt samtal við atvinnugreinina um framþróun námsins, þannig að skýrt sé hvert eigi að fara. Atvinnulífið og skólinn þurfa að þeirra mati að vinna betur saman í að marka heilstæða stefnu. Skólinn þarf að þekkja þarfir atvinnulífsins til lengri tíma en jafnframt þarf atvinnulífið að vera tilbúið til að þjálfa nemendur til að sinna störfum framtíðarinnar.

  Hafa samband

  Hafðu samband

  Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband