Enginn stuðningur við myndhöfunda á Íslandi

„Sálin sem býr í pappírnum veldur því að bækur eru enn að seljast þó við séum löngu komin með tækni sem gerir þær óþarfar uppi í hillu. Það er nautn í þessu áþreifanlega,“ segir Bergrún Íris Sævarsdóttir mynd -og rithöfundur í nýjasta þætti Augnabliks í iðnaði.

Bergrún Íris Sævarsdóttir mynd- og rithöfundur hefur undanfarið kennt skapandi skrif hjá Iðunni fræðslusetri við góðar undirtektir. Færni í að skrifa og setja fram texta og myndmál með skapandi hætti verður sífellt mikilvægari í störfum fólks eftir því sem tækninni fleygir hraðar fram. „Ég held að við séum að snúa aftur til okkar skapandi eðlis,“ segir hún. „Sköpun í starfi er það sem veldur því að við kulnum ekki og mér finnst þetta jafnvel vera geðheilbrigðismál.“

Börn vilja fleiri myndir

Bergrún Íris hefur skrifað og myndlýst fjölda barnabóka og námsefni og hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir. Fyrsta bók hennar Vinur minn, vindurinn kom út hjá Bókabeitunni árið 2014. Útgáfa barna- og unglingabóka verður sífellt blómlegri og Bergrún Íris segir nýja kynslóð barnabókahöfunda sem taka á samstímanum og stuðning stjórnvalda skipta sköpum. Þó megi gera betur og styðja við íslenska teiknara. „Ég myndi vilja sjá íslenska bókaútgefendur hugsa lengra fram á veginn. Hvað vilja börn? Þau vilja miklu fleiri myndir. Það er enginn stuðningur við myndhöfunda á Íslandi. Þeir hafa engan sjóð að sækja í, þeir geta ekki sótt um listamannalaun, þeir geta ekki sótt um í sjóði myndlistamanna eða rithöfunda. Ég myndi vilja sérstakan sjóð ætlaðan myndhöfundum. Ef við skoðum hvaða bækur eru langvinsælastar meðal barna á Íslandi þá eru það Kiddi Klaufi og Syrpa. Af hverju erum við ekki svara þessari þörf í íslenskri útgáfu?“

Myndlæsi mikilvægt

Bergrún Íris segir lítinn stuðning við íslenska teiknara koma niður á myndlæsi barna sem hafi þó sjaldan verið jafn mikilvægt í heimi þar sem úir og grúir af fölskum fréttum, myndskeiðum og upplýsingum. „Ég get alveg fengið grænar bólur af fjöldaframleiddum bókum þar sem teikningarnar eru augljóslega framleiddar í kínverskri teiknaraverksmiðju og hafa enga sál! Bækur útúrskreyttar með glimmeri, skærum litum og risastórum augum og svona Bratz dæmi. Mér finnst þetta óhugnanlegt. Því fleiri heimili sem svona bækur sem rata inn því meira erum við að útvatna myndlæsi og smekk barnanna okkar. Ég vil meira vandað efni í fleiri bókahillur á Íslandi. Til þess að börnin okkar séu læs á hvað sé auglýsing og hvað ekki, til þess að þau séu læs á samfélagsmiðla og allt þetta myndefni sem er fyrir framan þau. Hverju hefur verið breytt, hverju á ég að trúa? Við verðum að halda í ákveðna fagmennsku í greininni.“

Hafa samband

Hafðu samband

Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband