Það kemst enginn hjá því að læra að nota gervigreind

Róbert Bjarnason, sérfræðingur í gervigreind er viðmælandi í nýjasta kaffispjalli Augnabliks í iðnaði.

„Ég sé mikil tækifæri í því að bæta ákvarðanatöku,“ segir Róbert Bjarnason sérfræðingur í gervigreind um helstu kosti hennar fyrir íslenskan iðnað og atvinnulíf í nýjasta kaffispjalli Augnabliks í iðnaði.

Róbert segir mikla möguleika felast í því að nota gervigreindina í lífi og starfi. Það sé hægt að styðjast við hana til þess að vinna hraðar og betur og það sé ekki lengur flókið og tímafrekt verkefni að vinna viðskipta- og rekstraráætlanir, gera kynningar eða vinna á skapandi hátt með myndir og texta. „Það kemst enginn hjá því að læra að nota gervigreindina. Borgar það sig að kunna að nota síma? Að skilja hvað rafmagn er? Að nota netið?“ Segir Róbert og segir gervigreindina nú þegar þéttofna í okkar daglega líf.

Róbert er með yfir 30 ára reynslu í gervigreind, og framleiðslu tölvuleikja, vefkerfa, kvikmynda og tónlistar. Í lok september kennir Róbert tvö stutt og afar hagnýt námskeið fyrir Iðuna fræðslusetur, fyrra námskeiðið sem hefst 5.september fjallar um myndvinnslu með gervigreindartækni. Notuð verða verkfæri á borð við MidJourney, Dall-e, StableDiffusion og Photoshop. Farið verður í grunnatriði þess að skrifa leiðbeiningar til að búa til myndir.

Á seinna námskeiðinu sem hefst 26.september verður textavinna í forgrunni og Róbert kennir góðar aðferðir til að nýta spjallmenni í skrif -og hugmyndavinnu. Sérstaklega verður farið í möguleika á að nota ChatGPT á íslensku. „Það er mín reynsla að fólk er fljótt að læra á gervigreindina enda eru þetta mjög aðgengileg kerfi. Það gagnast fólki að fara á dýptina og læra að gefa góðar skipanir til að gervigreindin nýtist þeim betur og það er það sem ég ætla að aðstoða fólk við á þessum námskeiðum.“

Hafa samband

Hafðu samband

Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband