Með fræðslustjóra að láni getur þú komið fræðslumálum hjá þínu starfsfólki í markvissan farveg. Eins og nafnið gefur til kynna fá fyrirtæki fræðslustjóra/ráðgjafa að láni sem er sérhæfður í fræðslu á vinnustað. Ráðgjafinn gerir greiningu á fræðsluþörfum starfsfólks í samvinnu við stjórnendur sem og starfsfólk. Út frá greiningunni er unnin fræðsluáætlun sem leggur grunn að markvissri símenntun starfsmanna.
Þau fyrirtæki sem greiða starfsmenntaiðgjöld í Iðuna fræðslusetur, Landsmennt, Starfsafl, Rafiðnaðarskólann, Starfsmenntasjóð verslunar- og skrifstofufólks, Starfsmenntasjóð verslunar eða Verkstjórasamband Íslands geta fengið styrk fyrir fræðslustjóra að láni.
Óski fyrirtæki eftir að fá fræðslustjóra að láni skerðir greiðsluþátttaka í því rétt fyrirtækja til fræðslustyrkja til samræmis við þá hámarksupphæð sem fyrirtækið getur sótt um.
Fyrirtæki geta sótt um styrk til Iðunnar ein og sér eða í samvinnu við önnur fyrirtæki, fræðsluaðila og/eða stéttarfélög sem aðild eiga að Iðunni, í gegnum vefinn attin.is.
Fyrirtækjaþjónustan hefur skapað sér ákveðinn sess hjá Iðunni. Í henni felst að leiðtogar greinanna heimsækja fyrirtæki á sínu sviði. Í heimsóknunum er meðal annars farið yfir námsframboð Iðunnar, boðið upp á sérsniðin námskeið, möguleikar sem bjóðast með Fræðslustjóra að láni eru kynntir og fjallað um raunfærnimat. Skráðar eru í hugmyndabanka tillögur að nýjum námskeiðum sem koma frá starfsfólki og stjórnendum og reynt að koma til móts við slíkar óskir. Þá hafa heimsóknir verið nýttar til að miðla þekkingu og reynslu fyrirtækja til annarra í sama iðnaði með því að taka upp hlaðvörp og fræðslumyndskeið.