Dýrmætt að eiga hreyfihönnun í vopnabúrinu

„Allir geta búið til hreyfimyndir,“ segir Steinar Júlíusson hreyfihönnuður, nýr kennari á prent- og miðlunarsviði IÐUNNAR sem útskýrir mikilvægi slíkrar hönnunar í markaðsstarfi og segir frá verkefnum sínum.

Steinar Júlíusson
Steinar Júlíusson

Steinar Júlíusson er reynslumikill og farsæll hreyfihönnuður. Hann hefur starfað fyrir H&M, Acne Stockholm, Unicef á Íslandi, Borgarleikhúsið og Absolut Vodka. Steinar hefur áður kennt við LHÍ og hinn virta Berghs School of Communication. Hann kennir nýtt námskeið sem hefst 13. október þar sem farið verður í undirstöðuatriði hönnunar á hreyfimyndum. Nemendur fá leiðsögn í að leysa einföld verkefni og lagður góður grunnur í notkun á After Effects forritinu.

„Myndbönd og sérstaklega hreyfimyndir hafa sótt í sig veðrið undanfarin ár, enda mikill áhugi á þeim miðli. Þegar kemur að markaðssetningu á hinum ýmsu vörum og þjónustu þá er afsaplega dýrmætt að eiga hreyfihönnun í vopnabúrinu,“ segir Steinar og nefnir dæmi. „Þetta geta verið hefbundnar auglýsingar, útskýringar-myndbönd, „case studies“, „testimonials“ og annað markaðsefni til að auka hlutdeild fyrirtækja á samfélagsmiðlum. En fyrst og fremst er hreyfihönnun tæki til að segja sögu, hvort sem það er af nýrri þjónustu tæknifyrirtækis eða góðs árangurs af hjálparstarfi. Hreyfihönnun kemur ekki í staðinn fyrir t.d. filmað efni, hún er í raun hrein viðbót.“

Allir ættu að geta fundið sína leið til sköpunar

Geta allir náð tökum á því að búa til hreyfimyndir? Hverjir hafa gagn af því að sitja námskeiðið hjá þér?

„Það geta allir búið til hreyfimyndir ef áhuginn er til staðar. Það er ekkert betra né verra að vera góður teiknari í þessu fagi eða vera sérstaklega skapandi. Það eru til svo margar leiðir og margir stílar í hreyfihönnun að allir ættu að geta fundið sína eigin leið til sköpunar og fá tækifæri til að prófa sig áfram. Það er þó nauðsynlegt að öðlast grundvallarskilning hvað hreyfihönnun er, hvernig má nota hana og hvaða tækni er best að beita. Þeir sem vinna við kynningar- og markaðsmál ásamt þeim sem eru í einhvers konar framleiðslu á afþreyingu og fjölmiðlun eiga vafalaust eftir að njóta góðs af slíkri kunnáttu. En svo er einfaldlega nóg að vera forvitinn um þetta fag og vilja fá tækifæri til að dýfa litlu tánni ofan í þessa laug.“

Vænst um vinnu fyrir Unicef

Það er gaman að líta yfir þín verk, þú hefur unnið fyrir H&M, Acne tískuhús og Absolut Vodka. Af hverju ertu stoltastur og af hverju?

„Mér þykir vænt um grafíska myndbandið sem ég gerði fyrir Unicef á Íslandi sem útskýrið hlutverk heimsforeldra. Fyrir utan að það hafi verið gott ferli í vinnslu myndbandsins og afraksturinn gladdi augað, þá er ánægjulegt að hafa fengið að vinna að verkefni sem skiptir máli og bætir heiminn. Það er eitthvað sem góð hreyfihönnun getur gert.“  Einnig má nefna leiksýninguna Karíus og Baktus í Hörpu sem ég var ákaflega ánægður með, en þar gerði ég hreyfigrafík sem var vörpuð á sérsmíðað tjald á sviðinu. Þar vann ég með einstaklega hæfileikaríkum og skapandi hóp og fékk ákveðið listrænt frelsi innan ákveðins ramma.“ 

Mest krefjandi að vinna fyrir H&M

En hvaða verkefni heldur þú að hafi verið mest krefjandi?

„Það var ansi krefjandi að vinna eitt verkefni fyrir H&M, en þar átti að setja saman myndband fyrir allar búðirnar sem sýndu væntanlegar fatalínur og komandi strauma og stefnur. Þar var ákveðin tímapressa og ýmsar tæknilegar útfærslur sem þurfti að leysa en ávallt ánægjulegt að geta fundið réttar lausnir sem viðskiptavinurinn er sáttur við.“

Mikilvægt að leita út fyrir fagið eftir innblæstri

Hvaðan sækir þú þér innblástur? Og getur þú nefnt dæmi um vel heppnaða hreyfihönnun úti í heimi?

„Ég er sífellt að sækja mér innblástur. Ég tel einnig mikilvægt að leita út fyrir sitt fag í ýmsum miðlum og listum. Í tónlist, myndlistarsýningum, þáttaröðum og arkitektúr. Það er til svo mikið af flottri hreyfihönnun út í hinum stóra heimi en ef ég á að nefna einn aðila sem ég lít upp til þá er það skólabróðir minn úr Hyper Island í Stokkhólmi sem heitir Raymo Ventura. Hann er að reka animation stúdíó í Philadelphia sem heitir Deux Wave. Hvert einasta myndband sem þau gera er algjör veisla fyrir augun.“ 

Einfaldleikinn spennandi

Eru einhver skemmtileg trend sem þú tekur eftir?

„Ég sé töluvert af því að sé verið að blanda tvívíðri og þrívíðri hreyfigrafík og mörkin þarna á milli geta verið óljós. Sífellt fleiri eru að leika sér með að hreyfa letur á skapandi hátt. Ég sé mikið af kornóttri áferð og mjóum línuteikningum. En það sem kveikir mest í mér er þegar einfaldleikinn ræður ríkjum. Þá er ekki hægt að fela sig á bak við einhverja keyrslutónlist og annars konar flugeldasýningu. Þá stendurðu og fellurðu með hreyfigrafíkinni. Hér er gott dæmi um slíkt: Animade rebrand.

Athugið að það eru aðeins fáein laus sæti í staðnámi í IÐUNNI fræðslusetri en annars verður námskeiðinu streymt vegna COVID-19. Allir nemendur námskeiðsins fá aðgang að upptökum í 30 daga eftir að námskeið hefst og geta því stundað námið á sínum hraða. Skráning og frekari upplýsingar hér

Hafa samband

Hafðu samband

Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband