Iðan hlýtur styrk úr Aski

Iðan fræðslusetur hlaut í dag styrk úr Aski mannvirkjarannsóknarsjóði fyrir verkefnið Loftþéttleikapróf bygginga.

  Askur - mannvirkjarannsóknarsjóður var stofnaður árið 2021 og styður við íslenskt hugvit og nýsköpun með því að veita árlega styrki til mannvirkjarannsókna. Alls bárust 62 umsóknir í Ask í þetta skiptið og var heildarupphæð þeirra 472 m.kr. Styrk hlutu 39 nýsköpunar- eða rannsóknarverkefni að fjárhæð 95 m.kr.

  Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, afhentu styrkina við athöfn í húsakynnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar (HMS). 

  Verkefni Iðunnar er í flokknum orkunýting og losun sem nær yfir verkefni sem varða orkunýtingu og/eða losun gróðurhúsalofttegunda vegna mannvirkjagerðar. Það miðast að því að auka við þekkingu fagfólks í bygginga- og mannvirkjagreinum í gerð loftþéttleikaprófa. Loftþéttleikapróf eru framkvæmd erlendis samkvæmt ISO staðli númer 9972. Verkefnið miðar að því að hægt verði að framkvæma loftþéttleikapróf samkvæmt þessum staðli hér á landi. Verkefnisstjóri er Ásgeir Valur Einarsson, leiðtogi í sjálfbærni hjá Iðunni.

  Árangur verkefnissins felst í því að aðstaða og tæki til kennslu í loftþéttleikaprófum verði að veruleika. Framtíðar markmið er hinsvegar að krafan um loftþéttleikapróf yrði endurskoðuð, færð nær stöðlum og kröfum í nágrannalöndum okkar og að aukin gæði færist í mannvirkjagerð á Íslandi.

  Með auknum kröfum vottanakerfa eins og t.d. hjá Svaninum þar sem þarf að framkvæma loftþéttleika próf er nauðsynlegt að efla og auka við þekkingu fagfólks.

  Allar frekari upplýsingar um úthlutunina má finna á vef Húsnæðis og mannvirkjastofnunar.

  Hafa samband

  Hafðu samband

  Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband