Sjálfbærni og nýsköpun í South West College

Iðan fræðslusetur hefur frá árinu 2006 verið í samstarfi við framsækinn iðn- og tækniskóla á Norður-Írlandi, South West College. Í dag snýst samstarfið um að styðja við iðnnema til starfsnáms og til þess að styrkja áherslur nýsköpunar og sjálfbærni í íslensku fræðslustarfi.

    Samstarf Iðunnar fræðsluseturs og South West College hvílir á traustum grunni. Iðan hefur frá árinu 2006 greitt leið 400 iðnnema South West College til starfsnáms í íslenskum fyrirtækjum á Erasmus styrk.

    Við skólann stendur sögufræg bygging sem áður var vinnuheimili fyrir fátæka. Í dag er búið að gera húsið upp og breyta í safn og vinnustofur fyrir frumkvöðla. Við ræddum við Kate McGrath viðskiptastjóra The Workhouse um starfsemina og hvernig hún fléttast saman við hefðbundið skólastarf South West College og hún bendir á mikilvægi þess að búa til og styðja við tækifæri í Enniskillen. The Workhouse muni þjóna jafnt bændum í nágrenninu sem og nemendum skólans. Allir séu velkomnir og njóti stuðnings skólans og bæjarfélagsins til að vinna að hugmyndum sínum. Í skólanum er rekin miðstöð endurnýjanlegrar orku og sjálfbærrar tækni, CREST (Center for Renewable Energy and Sustainable Techonlogies). Skólabyggingin er hönnuð og byggð í anda Passive House, staðals sem tryggir mikla orkunýtni. Um þessar mundir stefnir South West College að því markmiði að verða leiðandi í fræðslu um mannvirki eftir Passive House staðlinum á Norður-Írlandi. Við ræddum við Dr. Barry McCarron sem leiðir rannsóknir og þróun á sjálfbærni í mannvirkjagerð í South West College um hans sýn og markmið í loftlagsmálum. Skólabyggingin er stórmerkilegt þrekvirki þar sem allir hlutar hennar þjóna tilgangi og spara orku og varma. Dr. Barry fer yfir ávinninginn fyrir samfélagið, loftslagið og fjárhaginn því að umtalsverður fjárhagslegur sparnaður fylgir einnig grænum lausnum skólans.

    Starfsfólk Iðunnar fræðsluseturs mun njóta góðs af samstarfinu við South West College. Helen Gray, leiðtogi alþjóðaverkefna hjá Iðunni fræðslusetri segir mikilvægast að læra af skólasamfélagi sem hugsi um framtíðina. „Hér er skólasamfélag sem er að hugsa um inngildingu, grænar lausnir og stafræna umbreytingu og spyrða þetta saman í samfélag og vilja deila því með okkur.“

    Hafa samband

    Hafðu samband

    Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband