Nýsköpunarsamfélagið í Tæknisetri nýtist vel í iðnaði

Fremstu iðnaðarfyrirtæki landsins hafa nýtt sér aðstöðu, sérþekkingu og innviði Tækniseturs til þess að prófa ný ferli og vörur.

Guðbjörg Hrönn Óskarsdóttir framkvæmdastjóri Tækniseturs er gestur í hlaðvarpinu Augnablik í iðnaði og ræddi um starfsemina og hvernig þjónustan nýtist sprotum í iðnaði og fyrirtækjum sem stunda virka nýsköpun.

Tæknisetur er fyrirtæki í eigu ríkisins sem styður vel við frumkvöðla og nýsköpun innan fyrirtækja og brúar bilið á milli rannsóknasamfélagsins og atvinnulífsins. Þær rannsóknir sem stuðst er við eru helst á sviði mannvirkja, lífvísinda, efnistækni og orkumála. Hlutverk Tækniseturs er að bjóða upp á víðtækan aðgang að nauðsynlegri aðstöðu og innviðum til rannsókna og nýsköpunar. Það er til húsa í Árleyni í Grafarvogi og þar er mikilvæg prófunar og rannsóknaraðstaða vel búin tækjum, svo sem umfangsmiklum málmþrívíddarprentara, röntgensneiðmyndatæki og rafeindasmásjá svo nokkur þeirra séu upp talin. „Öll þessi tæki eru einstök á landsvísu,“ segir Guðbjörg.

Opið þeim sem þurfa á því að halda

Fáir vita að það Tæknisetur er í raun opið öllum þeim sem stunda virka nýsköpun og rannsóknir. Hvort sem það eru frumkvöðlar, fyrirtæki, háskólar, stofnanir eða fyrirtæki. Á þriðja tug fyrirtækja er með fasta aðstöðu í húsakynnum Tækniseturs en þangað leita einnig fjölmargir frumkvöðlar og fyrirtæki. Guðbjörg segir mikilvægt að styðja sérstaklega vel við frumkvöðla sem þurfa að styðjast við hátækni. „Það er okkar sýn að þessir dýru innviðir sem við eigum nýtist sem flestum. Við erum líka með praktískan búnað á borð við klippikvörn sem hampræktendur hafa notað til að undirbúa sínar vörur til steypingar. Við erum með búnað á borð við frostþurrkara, rafeindaverkstæði, plastprentara, málmverkstæði og mikið af búnaði sem gagnast til vöruprófunar. Hér er hægt að framkvæma alls konar áraunsprófanir. Við erum með sérhæft umhverfi til þess að veita vörunum áraun, rakaskápa, frostþýðiskápa og fleira.“

Tækin, sérfræðikunnáttan og aðstaðan nýtist sem flestum

Guðbjörg segir mikilvægt að fólk í nýsköpun í iðnaði viti af möguleikum Tækniseturs. Fremstu iðnaðarfyrirtæki landsins hafi nýtt sér innviðina með góðum árangri. Nú nýverið flutti fyrirtækið DDT úr aðstöðu sinni í Tæknisetri eftir að hafa þróað mikilvæga vöru og ferli fyrir áliðnaðinn. Þá má nefna fyrirtæki á borð við Controlant og Kerecis sem hafa nýtt sér innviðina til greiningar á sínum vörum og fyrirtækin Össur, Marel, Orf líftækni og Nox Medical sem nú eru orðin groin og virt en nutu á sínum tíma ríkulegs stuðnings forvera Tækniseturs. „Við viljum vinna að því að þessir tækniinnviðir verði sem sýnilegastir og nýtist sem flestum,“ segir Guðbjörg. „Ef þú ert að hanna vörur eða hanna ný ferli þá þarftu á einhverjum tímapunkti að stíga inn í svona umhverfi. Þá getur það verið mjög hár þröskuldur að verða sér úti um þá innviði sem þarf. Fólk sem starfar í iðnaði veit að það er gríðarlega mikil nýsköpun sem á sér stað innan fyrirtækja og þar getum við og erum að stíga inn. Það er bæði í stærri og smærri verkefnum sem það á sér stað,“ nefnir Guðbjörg og nefnir að í dag séu hugmyndir og verkefni sem tengjast sjálfvirknivæðingu, grænum lausnum og nýrri skynjaratækni áberandi.

Mikilvægt að hlusta á grasrótina og bregðast við

„Það er svo mikilvægt í þessu samtali að fyrirtækin átti sig á því að þú þarft ekki að koma og dvelja hjá okkur. Við erum líka opin fyrir smærri verkefnum og samstarfi,“ segir Guðbjörg og segir sína sýn vera þá að halda áfram að byggja upp innviðina og vera í góðu samtali við grasrótina. „Grasrótin og gróskan stýrist ekki af því hvað við erum að gera. Við þurfum að vera sveigjanleg og mæta þeim þörfum sem verða þar til. Það er mest spennandi og mesta áskorunin, að hluta, bregðast við og finna leiðir og lausnir til að gera sem mest gagn. Gera götuna greiða fyrir sem flesta.“

Hafa samband

Hafðu samband

Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband